Tímarit Máls og menningar - 01.06.1978, Page 32
Tímarit Máls og menningar
Lífið og þróun mála í heiminum bauð þessum mikla hugsjónamanni og
einlæga trúmanni upp á ýmis vonbrigði og þess sér merki í síðustu bókum
hans þótt bjartsýni hans og karlmennska sigri venjulega efann. En á öllum
skeiðum skáldferils síns brást Jóhannesi aldrei eitt: hinn einlægi, opinskái
hugur og það hjartaþel, sem honum fylgdi.
Eg hygg að Jóhannes hafi sjálfur best skilgreint skáldskap sinn með
eftirfarandi orðum í fyrirlestrinum „Skáldið og maðurinn“, sem hann flutti
á bókmenntakynningu í Háskóla Islands 1960 og birtur var í ritgerðasafni
hans Vinaspegli 1965:
Eitt vorra ungu skálda lét nýlega svo um mælt einmitt hér á þessum stað:
„Það er ekki fyrst og fremst spurt um hjartaþel í skáldskap, heldur sjón-
skerpuna, skynjunina, sköpunarmáttinn." Víst er það gamalkunnugt dómsorð
í ríki listarinnar að góð meining enga geri stoð. En er það ekki keppikefli
hvers einasta skálds að ná sambandi við mannssálir og mannshjörtu? Og
eigi maðurinn á annað borð sjónskerpuna, skynjunina, sköpunarmáttinn sem
gerir hann að skáldi — er þá ekki hjartaþelið sá rauði þráður sem bezt leiðir
galdur ljóðsins inn í vitund annarra manna?
Að mínu viti markast staða Jóhannesar úr Kötlum í íslenskri ljóðagerð
framar öðru af hæfileik hans til að skynja breytiþróun tímans sem hann
lifði og túlka hana í ljóðum sínum — með barnsins trygga hjarta í heimm
barmi.
142