Tímarit Máls og menningar - 01.03.1982, Page 19
Gunnar Kristjánsson
Úr heimi Ljósvíkingsins
1. Hinn sorglegi skáldsnillingur
Öhætt mun að fullyrða, að hið fátæka alþýðuskáld Ólafur Kárason Ljósvíkingur
sé framarlega í flokki þeirra íslenskra skáldsagnapersóna sem fundið hafa leiðina
að hjörtum lesenda. í þjáningum þessa „sorglega skáldsnillings", sem höfund-
urinn nefnir svo í ritgerð,1 hefur lesandinn skynjað brot af eigin veruleika. Og í
fegurðarskynjun þeirri sem ber uppi líf skáldsins og lyftir því á æðra svið hefur
lesandinn einnig séð eigin veruleika svo sem í skuggsjá og óljósri mynd.
I þeirri ritgerð sem hér birtist (og að mestu er samhljóða útvarpserindum sem
höfundur hennar flutti í apríl 1979) mun einkum fjallað um skáldverkið
Heimsljós eftir Halldór Laxness. Verkið kom út í fjórum hlutum á árunum
1936—40. Það er þó einkum sjálf aðalpersóna verksins, Ólafur Kárason, sem
fjallað verður um. Reynt verður að gera lífsmynstri hans nokkur skil og þá
umfram allt höfuðþáttum þess, þjáningunni og fegurðarskynjuninni.
Skáldsagan og raunveruleikinn
Vissulega er ekki til nein ein leið til þess að skilja skáldsögur. Skáldverk talar til
sérhvers nýs tíma á nýjan hátt, það vex frá höfundi sinum og hann frá því, það
öðlast nýja merkingu í nýju umhverfi. Skáldverkið skapar ný tengsl við menn-
ingu nýs tíma, það fær jafnvel merkingu, sem höfund þess hafði aldrei órað fyrir
að í því byggi. Kannski á þetta fyrst og fremst við um skáldverk höfunda sem
búa yfir slíkum tökum á meðferð hins sérstæða, að það fær algilda merkingu.
Þar sem rithöfundi tekst að lýsa hinu sann-mannlega, og þar með hinu
sam-mannlega i lífsmynstri einnar persónu eða samfélags, þar hefur honum
tekist að skapa klassískt listaverk. Því má segja að þjáningar Antígónu eða Don
Quichote séu nútímanum ekki torskildari en þjáningar Ólafs Kárasonar eða
Sólons íslandus. Hinir varanlegu þættir í tilvist mannsins eru um leið hinir
sígildu.
9