Tímarit Máls og menningar - 01.03.1982, Side 37
Úr heimi Ljósvíkingsins
inguna af dýpra innsæi og reynt að finna henni stað í lífsvef mannsins á
trúverðugri hátt en flest önnur íslensk skáld jsessarar aldar. Hjá báðum þessum
rithöfundum er þjáningin jákvæð í þá veru að hún hafi frelsandi hlutverki að
gegna í mjög víðtækum skilningi. En eins og önnur íslensk skáld sækir Davíð
skilning sinn á túlkun þjáningarinnar til hinnar lúthersku hefðar — að einu
undanskildu, Halldóri Laxness.
Það er hafið yfir allan vafa að sá skilningur á þjáningunni sem fram kemur oft
á tíðum í verkum Halldórs hefur ósjaldan reynst íslenskum lesendum verka hans
óþægur ljár í þúfu. Má minna á upphafsorð Brekkukotsannáls sem jafnvel hafa
valdið hneykslun og fyrirlitningu. A hinn bóginn hefur svo hinn blíði og djúpi
tónn samlíðunarinnar vafalaust fallið lesendum vel í geð án þess þeir gerðu sér
yfirleitt grein fyrir því að hin framandlega framsetning og tæra fegurð þeirra á
sér uppsprettu í þeim djúpa brunni kristinnar þjáningardulhyggju plat-
ónsk-ágústínskrar guðfræði sem ríkjandi hefur verið um aldir í klaustrum
benediktsmunka.
I Heimsljósi má hiklaust segja, að hinn sérstaki skilningur Halldórs Laxness á
þjáningunni komi skýrar og betur fram en í öðrum verkum hans. Með þessu er
þó ekki sagt að hægt sé að ræða um einhvern boðskap í verkum Halldórs þar
sem þjáningin er annars vegar, þótt erfitt yrði hins vegar að sýna fram á að svo sé
ekki.
Heimur Ljósvíkingsins er öðru fremur heimur þjáningar, fátæktar, hungurs
og harðrar vinnu. Engum nema Ólafi Kátasyni kemur til hugar að fást við
önnur gildi tilverunnar en daglega afkomu. En hann fær sinn skammt af
þjáningunni engu síður en aðrir. Auk sjúkdóma, fátæktar og dauða er líf hans
þjáð af sambúðinni við hina sjúku Jarþrúði. En fyrir utan allt þetta þjáist Ólafur
vegna þess eins að vera til og hafa skynjað fegurðina. Sá sem skynjað hefur
fegurðina á að hans skilningi ekki lengur heima á jörðinni.
ÞjáningarskilningurJarprúðar
Jarþrúður, eiginkona skáldsins, skilur þjáningar sínar fyrst og fremst sem réttláta
og kærleiksríka refsingu Guðs. Hún telur sig ekkert annað eiga skilið vegna
synda sinna sem kalli á refsingu Guðs, og réttlát kærleiksrík refsing hans birtist
í hinum ólæknandi, heilaga sjúkdómi hennar. Guð elskar fyrst og fremst þá
minnstu og þjáðustu og því telur hún sig elskaða af Guði þrátt fyrir réttláta reiði
hans sem hún tekur með þökkum og nýtut af heilum hug. í upphafi sambands
þeirra Jarþrúðar og Ólafs finna þau hvort annað í sameiginlegum þjáningum.
27