Tímarit Máls og menningar - 01.03.1982, Side 49
Hugmyndafraði A Iþýðubóka rinnar
blaðsíðutilvísanirnar eiga við frumútgáfuna nema annað sé tekið fram). Þarna
segist hann einnig hafa orðið sósíalisti þegar hann dvaldist í Bandaríkjunum, —
reyndar ekki af því að lesa bækur, heldur af því sem hann sá. Tónblær greinanna
í Alþýðubókinni er fyrst og fremst andborgaralegur, eins og Halldór benti sjálfur
á í bréfi,2 og oft ögrandi. Ef grennslast er fyrir um hvaða grundvallarskoðanir
bókin flytur, ber mest á eftirfarandi atriðum:
1) Trúarbrögðin eru talin ópíum alþýðunnar er dragi athyglina frá
raunverulegum jarðneskum vandamálum.
2) Halldór telur meginið af því sem nefnt er list og skáldskapur (og þar
með talin kvikmyndin) á tíma kapítalismans fánýtt bull.
3) Halldór álítur að nýta beri vísindaframfarir í landbúnaði, uppeldi
barna, í sambandi við þrifnað, list og stjórn(un)armál.
4) Kapítalisminn er að dómi hans vont skipulagsform fyrir samfélagið
vegna þcss að hann hefur 1 för með sér rangláta og þar með illa skiptingu
á auðæfum jarðar. Jörðin er auðug og þess vegna ætti mannfólkið, sem á
hana, ekki að vera fátækt: fátæktin er versti glæpur mannkynsins.
Að því er virðist eru þessar grundvallarskoðanir í ágætu samræmi við
meginhugmyndir flestra sósíalista. En sé betur að gáð, kemur ýmislegt annað í
ljós. Skoðanir Halldórs stangast stundum á í bókinni. Að sumu leyti falla þær
hvorki vel að stefnu kommúnista né sósíaldemókrata á þessum tíma. Textinn
samræmist ekki heldur því sem nú á dögum er nefnt sósíalismi, en þá á ég við
alþýðusinnaða andspyrnu í velferðarsamfélögum. í skemmstu máli sagt er
hugmyndafræði Alpýðubókarinnar ekki sósíalísk nema í vissum skilningi; en að
svo miklu leyti sem hún verður bendluð við sósíalisma, þá er þar um að ræða
„hinn vísindalega sósíalisma“. Ymis konar tæknihyggja, samfara hlutlægnis-
hyggjulegri þekkingarfræði og stundum dólgaefnishyggju, eru megineinkenni
hins vísindalega sósíalisma á tíma Stalíns, og alls þessa gætir í Alþýðubókinni,
einkum þó tæknihyggjunnar. Annað megineinkenni bókarinnar er róttækni
hennar. Með róttækni á ég þá annars vegar við að hún er öfgakennd, fjörleg og
jafnvel galsafengin á köflum. Hins vegar er bókin róttæk (vinstriradxkal) í þeirri
merkingu að hún fellur ekki í farveg agaðs bolsévisma, heldur heimtar allt strax
og gefur oft lítið í aðstæðumar sem fyrir eru. Róttækni i þeirri merkingu taldi
Lenín vera fyrir hendi í vissum öfgahópum í byltingarhreyfingunni og gagn-
rýndi þá í sérstöku riti. Byltingarmóður, framfaratrú og tæknihyggja Alþýðu-
bókarinnar geta mjög auðveldlega leitt hugann að hugsuðum upplýsingarinnar
sem aðhylltust sams konar skynsemistrú og Halldór og fleiri sósíalistar á þessum
árum og allt fram undir stríð.
39