Tímarit Máls og menningar - 01.03.1982, Page 95
Frelsið og sprengjan
Við skulum svo snúa okkur að mikilvægari misskilningi. í bréfi yðar gerið þér
ráð fyrir að málstaður friðar og frelsis eigi ekki samleið. Þér grunið bersýnilega
þá sem vinna í þágu þess fyrrnefnda um óheilindi í garð hins síðarnefnda. Þér
gerið jafnvel ráð fyrir að þér þurfið að sannfæra mig um að þjóðfélagskerfið sem
þér búið við sé „gjörólíkt" mínu og þér segið að mér kunni að finnast það
„undarleg“ tíðindi að opinber gagnrýni mín á breskt þjóðfélagskerfi feli í sér
sönnun þess að lýðræði okkar er enn fyrir hendi.
Hvers vegna skyldi vera þörf á að sannfæra mig um slíkt? Um það hef ég sjálfur
ritað. Eitt helsta viðfangsefni mitt sem sagnfræðings hefur verið að fást við athugun
á uppruna, veruleik og takmörkunum lýðræðis okkar. Að ég kveð svo fast að orði
nú sem raun ber vitni, stafar af því að nú ógnar hervæðingin lýðræðinu.
Hvers vegna ætti vörn mín fyrir bresku frelsi að dæma mig úr leik í augum
tékkneskra frelsisunnenda? Viljið þér aðeins frelsi fyrir Tékka? Eða aðeins fyrir
þá sem búa í kommúnistaríkjum? Ógnar ekkert annað frelsinu, engin önnur
form „alræðis“-stjórnar?
Maður neyðist til að bera fram þessar óvægnu spurningar vegna nokkurra
nýlegra staðhæfinga sovéskra og austur-evrópskra „andófsmanna“. Þér segið
mér að ég hafi „öfugsnúið mat“ á ástandinu. Þetta er án efa rétt og það gildir um
okkur báða, að reynslan er vilhöll. Eg er jafnhissa á öfugsnúnu mati sumra í
Austur-Evrópu.
Ég hef rætt við hugrakka karla og konur í Austur-Evrópu og fyllst auðmýkt
frammi fyrir þeirri óbilandi staðfestu sem það fólk sýndi þtátt fyrir þá spennu sem
fylgir daglegum skiptum við ruddafengna leyniþjónustu. Engu að síður hafði
það fólk ræktað í huga sér algjöra falsmynd af „veröldinni fyrir handan“, ímynd
sem annars vegar var byggð á útvarpssendingum Raddar Ameríku (Voice of
America) og hins vegar á þeirri föstu venju (og reyndar kreddu) að snúa jafnan
opinberum áróðri upp í andstæðu sína.
Mér var sagt — svo ég tíni til eitt dæmi — að Allende hefði verið „komm-
únískur einræðisherra", sem velt hefði verið af valdastóli með allsherjarverkfalli
er naut almenns stuðnings.
Allende var lýðræðislega kjörinn forseti, stefna hans var umbótasinnuð og var
grafið undan honum fyrst og hann síðan myrtur í valdaráni hersins. Það sem
fylgdi í kjölfarið í Chile; harðstjórnin, aftökurnar, pyntingarnar og ofsóknir á
hendur öllu menntalífi, gengur langtum lengra en nokkuð sem gerst hefur
undanfarinn áratug í Austur-Evrópu.
Þetta segi ég ekki til að draga fjöður yfir eða afsaka gjörræðislega (og
85