Tímarit Máls og menningar - 01.05.1986, Síða 107
Verdleikar og sannleikur
einföld og þyrfti vart rökstuðnings við, væru heimspekingar ekki búnir að
gera hana tortryggilega (159). Svarið sem blasir við, ef spurt er hvað réttlæti
sé, er: það sem hverjum ber, það sem hver og einn á skilið. Við þetta
síðarnefnda atriði vil ég gera smávægilega athugasemd.
Svo virðist sem hver viti borinn maður hljóti að fallast á þá skoðun að
réttlæti sé það sem manni ber, það sem hann á skilið. Hugtökin um réttlæti
og um að eiga eitthvað skilið eru a. m. k. svo nákomin að það jaðrar við að
vera sjálfu sér ósamkvæmt að halda því fram að réttlátt sé að eitthvað falli
manni í skaut sem jafnframt er viðurkennt að hann eigi engan veginn skilið.
Það mega heita sjálfgefin sannindi en kannski ekki áhugaverð að sama skapi
að réttlátt sé að allir fái það sem þeir eiga skilið. Ætla mætti af upphafsorð-
um ritgerðar Þorsteins að verðleikakenningin merki ekki annað en þetta. A
hinn bóginn sýnist mér beiting Þorsteins á kenningunni og öll orð hans um
verðleika í því sambandi benda til að í henni eigi að felast annað og meira.
Þorsteinn bendir á, svo að eitt dæmi sé tekið, að John Rawls vísi „verð-
leikum burt úr ríki réttlætisins" (209).3 Eg er sannfærður um að þótt þetta sé
alveg rétt megi ekki draga af því þá ályktun að John Rawls vilji neita því að
réttlátt sé að hver og einn fái það sem hann á skilið. Það kemur nefnilega í
ljós, að hjá Þorsteini merkir orðið „verðleikar" nánast sama og „kostir“.
Það er auðvitað langt frá því að vera sjálfsagt mál að það sé ævinlega réttlátt
að meðhöndla fólk eftir því hvaða kostum það er prýtt. Þetta er hins vegar
hugmynd sem er allrar athygli verð.
Sannmæliskenningu sína orðar Þorsteinn sem svo að réttlæti sé sannmæli,
ranglæti svikmæli, og áður hefur hann sagt „að ranglætið sjálft sé rógur eða
illmælgi“ (214, 212). Eg hygg að mörgum muni virðast þetta einkennileg og
ef til vill ótrúleg skoðun við fyrstu sýn. En eins og sjá má af dæmum
Þorsteins og útlagningu hans á þeim er greinilega heilmikið vit í henni.
Hann bendir til dæmis á að „misrétti birtist einatt í rógi, um óþrif Serkja eða
Indverja, ágirnd Armena eða Gyðinga, heimsku kvenna eða blökkumanna
og þannig áfram endalaust. Og þessi rógur er eins og allur annar ósönn
illmælgi“ (212). Og hann segir ennfremur: „Segjum að blökkumanni sé
vísað út úr verzlun í Jóhannesarborg sökum litarháttar síns. Þá er þetta
ranglæti sjálft yfirlýsing eða áminning um það að hann sé óverðugri en hinir
sem afgreiddir eru með glöðu geði. Og er þetta ekki ranglæti vegna þess að
það er næstum ábyggilega ekki rétt að hann sé ekki jafngildur hverjum sem
er af hinum?“ (213)
Þorsteini virðist sannleikurinn voldugur og réttlætið líka. Svo er að sjá
sem hvatinn að sannmæliskenningunni um réttlætið sé hugboð um náinn
skyldleika þessa tvenns. Réttlætið er algilt eins og sannleikurinn, en ekki
afstætt og einstaklingsbundið, og hvort maður vinnur réttlátt verk eða ekki
233