Tímarit Máls og menningar - 01.09.1997, Síða 22
RÓBERT H. HARALDSSON
uppi allt hið undarlega og vafasama, og um ást sína á spurningarmerkjum.23
Hann leggur sérlega ríka áherslu á hversu mjög hann hafi hugað að hinum
smæstu og hversdagslegustu atriðum, einkum mat og drykk, loftslagi og
tómstundastörfum. Hann mælir t.d. mjög eindregið með löngum göngutúr-
um og hvetur alla andans menn til að snerta aldrei á áfengum drykkjum né
öðrum vímuefnum - vatn nægi þeim. Með áherslu sinni á einfaldan og
heilsusamlegan lifnað er Nietzsche ekki eingöngu að minna á hvernig andleg
og líkamleg heilsa24 ræðst af lifnaði - og hvernig við eigum til að gleyma því
á háfleygustu augnablikum lífs okkar; hann er ekki síður að beina sjónum
manna að því að dýpstu leyndardómar lífsins opinberast í hinum einföldustu
þörfum og athöfnum: Endurnýjun lífsins, sísköpun og verðandi eru ekki síst
augljós við morgunverðarborðið.
Að mínum dómi er markmið Nietzsches að sýna að heimspeki sé ekki
eiginleg fyrr en hún birtist sem lífsmáti, fyrr en hún gagnsýrir allt líf manna,
athafnir þeirra og tengsl við aðra menn. í Ecce homo segir Nietzsche að það
hafi glatt sig mest hversu góð tengsl hans við götusala voru, þeir hafi ávallt
valið sætustu vínberin handa honum. Og síðan bætir hann við: „Svo langt
verður maður að ná sem heimspekingur . . ,“.25 Fimmtán árum áður hafði
hann skrifað í Ótímabœrum hugleiðingum að eini markverði prófsteinninn
á heimspeki væri hvort gerlegt væri að lifa samkvæmt henni eða ekki. En sú
spurning væri því miður ekki á námsskrá háskóla, þar væri mönnum kennt
að gagnrýna orð með öðrum orðum.26 Nietzsche telur að heimspekin hafi
verið skilin frá réttum lifnaði, sé orðin orðaleikur. Menn segist t.d. vera
einhyggjumenn - segist hafna aðskilnaði líkama og anda - en lifi óheilbrigðu
lífi, fari illa með líkama sinn. Þannig lifi þeir í reynd eins og líkaminn væri
andanum óviðkomandi.
Nietzsche lýsir áhrifamiklum fyrirmyndum í náttúrlegum og hversdags-
legum lifnaði - ljóðskáldum sem ná að yrkja um ríkidæmi hversdagsleikans
- en um leið beinir hann sjónum okkar að því hversu léttvægar þessar
fýrirmyndir eru samanborið við lífið og náttúruna. Ljóðskáldið reynir að
glæða vitund okkar um margbreytileika og ríkidæmi náttúrunnar og lífsins
og takist það- ef við sjáum að náttúran er sívirk og lífið hefur engu glatað
af krafti sínum - verður ljóðskáldið léttvægt minnismerki um það sem var.
Þannig tvöfaldar Nietzsche vægi fyrirmyndarinnar. Hann hrífst t.d. mjög af
Fást og Manfreð en spyr: „En hvað eru Fást og Manfreð leikhússins fyrir þeim
sem er eitthvað líkur Fást og Manfreð?“.27 Ljóðskáldin þekkja vel þessa aðferð
Nietzsches og beita henni gjarnan til að mæra náttúruna, ekki síst til að sýna
að ágætasti lofsöngur um náttúruna verður að vera náttúrlegur, koma ffá
náttúrunni sjálfri. Jónas Hallgrímsson yrkir: „Skáld er eg ei en huldukonan
kallar“ og Hannes Pétursson yrkir: „Skáld verð ég ekki fyrr en ég finn að þú
20
TMM 1997:3