Tímarit Máls og menningar - 01.09.1997, Qupperneq 67
STEFNUMÓT VIÐ DÍONÝSOS
Þessi hlið á hugsun Nietzsches átti stærstan þátt í því að mörgum varð hált
á að nota einstakar tilvitnanir úr verkum hans til að styðja það sem þeim var
í mun að sanna hverju sinni. ítalski fræðimaðurinn Colli gekk svo langt að
halda því fram að hver sá sem reyndi að túlka Nietzsche með því að raða
saman tilvitnunum í verk hans væri falsari.
Auðvitað er ógjörningur að túlka höfund á borð við Nietzsche án þess að
styðjast við tilvitnanir. Það sem mestu varðar er þó að missa aldrei sjónar á
því samhengi sem einstakar hugsanir standa í, - rífa þær ekki með rótum
upp úr þeim hugmyndalega jarðvegi, sem þeim var ætlað að þrífast í. Sá sem
gerir það lendir á heimspekilegum villigötum.
Hugsun Nietzsches er eins konar vefur, þar sem hugmyndir af ýmsum og
stundum ólíkum toga, bjartsýni, bölhyggja, léttúð og tregi, von og vonleysi
fléttast saman í eina órofa heild. Þessi vefur er jafnframt effirmynd lífsins
sjálfs. Sá sem vill lesa, skilja og túlka hugmyndir Nietzsches þarf að vera
gæddur þeim „heimspekilega næmleika“, sem hann talaði sjálfur um, þegar
hann kvartaði undan því í bréfi til danska bókmenntafræðingsins Georgs
Brandesar, að lesendur hefðu ekki skilið bók hans „Handan góðs og ills“:
„Ég held að jafnvel velviljuðustu lesendur hafi ekki tekið eftir því að
hér er á ferðinni ítarleg rökfræði ákveðins heimspekilegs næmleika
en ekki samsafn af hundruðum þversagna... Það virðist enginn hafa
skynjað neitt slíkt: það kemur enginn til móts við mig með svo mikið
sem þúsundasta brot af ástríðu og þjáningu.“12
í þessum orðum felst mikilvæg ábending um það sem menn þurfa til að geta
lesið og „skilið“ það sem Nietzsche skrifaði. Það er ekki hægt að nálgast
hugsun hans með kaldri rökvísi; menn verða þvert á móti að lesa þessa
margslungnu texta af ástríðu og næmleika, svo að þeir finni sjálfir fýrir
kvikunni sem leynist undir marglitri grímu orðanna.
Það gefur auga leið að í þessu tilliti gegnir stíllinn, sjálfur búningur
hugsunarinnar, mikilvægu hlutverki. Nietzsche gerir ekki aðeins þá kröfu til
lesenda, að þeir skilji og skynji merkingu textans, heldur er honum líka í mun
að þeir „grípi“ hljómfall, hraða og önnur blæbrigði málsins. í því tilliti óskar
hann þess að lesendur hafi „þriðja eyrað “ í lagi.
Það er effirtektarvert að Nietzsche lætur í Ijósi miklar efasemdir um færni
landa sinna til að stílsetja hugsanir sínar skammlaust. Það fer heldur ekki á
milli mála, hvaða álit hann hefur á þýskum lesendum:
„Hvílíkt kvalræði eru bækur á þýsku fyrir þann sem hefur þriðja
eyrað! Hversu mikil skapraun er honum að fýlgjast með þessari
seigfljótandi forarvilpu hljómlausra hljóma, hljómfalls sem enginn
TMM 1997:3
65