Tímarit Máls og menningar - 01.09.1997, Qupperneq 74
Guðbergur Bergsson
Dæmisaga af spænskum
ættum*
Reykjavík, 19. ágúst 1997
Kæru íslendingar!
Einu sinni átti heima á Spáni maður sem var einn og hálfur metri á hæð.
Auðvitað var hann kominn af þeim fáu ættum sem þarna eru kallaðar
Háaðall Spánar. Af honum eru göfugustu menn þjóðar sem er þekkt í hinum
kristna heimi fyrir riddaramennsku, dulúð og myrkar tilfinningar í eldheitu
blóði, í bland við óbilandi sjálfsálit og stolt sem fer sínu ffam hvað sem hver
segir.
Þegar aðalsmaðurinn var á miðjum aldri reisti hann sér stóra, glæsta höll,
þótt hann ætti auðvitað fjölmargar aðrar fyrir. Þær hafði hann fengið í arf
ffá ættmönnum sínum. Nú ætlaði hann að byggja þá sem væri í einu og öllu
sniðin fyrir hann sjálfan og honum samboðin.
Með því að aðalsmaðurinn taldi sig vera fulltrúa kynborinnar og göfugrar
einstaklingshyggju bar hann ætíð höfuðið hátt hvað sem á dundi kringum
hann. Þess vegna varð honum oft að orði:
Lífsviðhorf mitt er einfalt: Betra er að deyja uppréttur en ef maður liggur
á hnjánum. Enda er ekki sama í hvaða stellingu maður gefur upp andann.
Orðstír er framtíð þess sem deyr með fæturna á jörðinni.
Sé þetta viðhorf haft í huga er óþarfi að segja, þó það sé hér gert, að höllin
var höll sem hann reisti hugsun sinni, en um leið átti hún að vera boðskapur
og erfðagripur handa komandi kynslóð, á sama hátt og annað í lífi hans.
Hvaðeina sem svona menn ráðast í, eða hugsa, er gert með hliðsjón af
mannkynssögunni, einkum þó eilífðinni, og hvað sé lærdómur fyrir ókomna
tíma. Sérhver þáttur í fari þeirra er tengdur ódauðleika, ekki bara hér á jörð,
heldur handan grafar. í fari þeirra felst því kynleg mótsögn: Þeir reisa sér
hallir og geta ekki hugsað sér að deyja frá hverfulu lífi, sem hlýtur að vera
þeim ósamboðið, vegna fallveltis síns, en eilífðin samboðnari. Þeir ættu
eiginlega að vera alla tíð dánir.
Höllin var hátimbruð með stórt hvolfþak, og í herbergjunum var hátt til
72
TMM 1997:3