Dagblaðið Vísir - DV - 29.08.2014, Blaðsíða 18
Helgarblað 29. ágúst–1. september 201418 Fréttir
F
iskeldi er í örum vexti á Ís-
landi og er útlit fyrir að fram-
leiðsla muni tvöfaldast á
næstu árum og margfaldast
á næstu áratugum. Í vor var
samþykkt frumvarp um breytingar
á regluverki greinarinnar til að ein-
falda umsóknarferli og styrkja regl-
ur um umhverfisvernd. Frumvarp-
ið var meðal annars byggt á störfum
sérfræðinganefndar sem gerði úttekt
á leyfisveitingum og eftirliti í fiskeldi
en nefndin skilaði skýrslu þess efn-
is í júní síðastliðnum. Skýrslan heit-
ir Skýrsla nefndar um leyfisveitingar
og eftirlit í fiskeldi en í nefndinni
sátu Valdimar Ingi Gunnarsson
sjávarútvegsfræðingur, Guðbergur
Rúnarsson verkfræðingur og Sigríður
Auður Arnardóttir skrifstofustjóri
auk Ástu Einarsdóttur lögfræðingi.
Samhliða því setti atvinnuvega-
og nýsköpunarráðuneytið saman
sérfræðihóp sem vinnur að því að
innleiða norska umhverfis- og eftir-
litsstaðla.
Gagnrýni á sjókvíaeldi
Landssamband veiðifélaga hefur
gagnrýnt eldi á lax í sjó auk þess
sem Orri Vigfússon, formaður NASF,
verndarsjóðs villtra laxastofna, ritaði
Sigurði Inga Jóhannessyni, umhverf-
is- og auðlindaráðherra, bréf nýlega
þar sem þess var óskað að tafarlaust
færi fram rannsókn á fiskeldi á Vest-
fjörðum. Ástæðan er slysaslepping
um 200 laxa, frá Fjarðalaxi í vetur,
sem undanfarið hafa veiðst í ám í ná-
grenninu.
Aðalbjörg Birna Guttormsdótt-
ir, líf-, umhverfis- og auðlinda-
fræðingur, ritaði grein fyrr á ár-
inu þar sem hún benti á að framtíð
norsks fiskeldis væri í lokuðum kví-
um en Geir Spiten, forstjóri Akva-
Tech í Noregi sem framleiðir slíkar
kvíar, segir marga helstu framleið-
endur þar í landi gera tilraun með
slíkar kvíar um þessar mundir. Hann
segir hraðari vöxt vera í lokuðu kerfi,
sleppingar sjaldgæfar sem og lús.
Auk þess sé hægt sé að nýta úrgang
sem áburð eða til lífgasvinnslu.
Hér á landi eru þó töluvert
strangari reglur um laxeldi í sjó með
tilliti til villtra stofna. Aðeins er leyfi-
legt að ala laxfisk á vissum svæðum
og á þeim svæðum miðast fjarlægð
frá ám við meðalveiði. Erfðablöndun
er þó ekki eina neikvæða aukaverk-
un eldis heldur mengun á hafsbotni
sem af því hlýst. Hér eru þó einnig
ólíkar aðstæður þar sem svokallaðir
þröskuldsfirðir eru algengir í Noregi
þar sem náttúruleg hreinsun er mun
minni.
Ný lög ár í aðlögun
„Það er verið að vinna að því að
koma þessu frumvarpi til fram-
kvæmdar sem samþykkt var í vor.
Síðan stofnaði ráðuneytið vinnuhóp
sérfræðinga sem vinna að því að inn-
leiða norska umhverfis- og tækni-
staðla en það tekur sinn tíma. Þetta
er flókið og viðamikið verkefni,“ seg-
ir Jóhann Guðmundsson, skrifstofu-
stjóri í atvinnuvega- og nýsköpun-
arráðuneytinu.
Jóhann telur líklegt að um ár
muni taka að flytja verkefni á milli
stofnana en lengi höfðu aðilar í fisk-
eldi gagnrýnt ósamræmi og flókið
umsóknarferli. Með nýja frumvarp-
inu flyst leyfisveitingarferli í fiskeldi
til Matvælastofnunar í stað þriggja
opinberra aðila áður og að leyfi verði
afgreidd innan sex mánaða frá um-
sókn. Matvælastofnun mun einnig
sjá um eftirlit með leyfisskyldri starf-
semi og gera þjónustusamninga við
aðrar stofnanir þar sem það getur átt
við. Þá munu allir umsóknaraðilar
sitja við sama borð óháð umfangi.
Allir við sama borð
Aðspurður hvort einhver stefna sé
innan ráðuneytisins eða með nýja
frumvarpinu að hvetja til einnar
tegundar af eldi fremur en annarr-
ar segir Jóhann ekki svo vera. „Fyrst
og fremst er verið að einfalda ferlið
og innleiða allra ströngustu kröfur
varðandi umhverfismál. En það er
auðvitað þannig að eftirlitið þarf að
fylgja með. Þetta er grein sem hefur
farið í gegnum marga fasa en vonir
standa til að núna geti þetta gengið
betur fyrir sig.“
Jóhann telur nokkra úrbót vera
með nýju frumvarpi en enn skorti þó
reynslu til að geta fullyrt um fram-
haldið. „Það er mikil þróunarvinna
sem á eftir að eiga sér stað enn þá.“
Aðspurður um lokaðar kvíar og hvort
þær hafi sérstaklega komið til um-
ræðu segir Jóhann svo ekki vera en
hér noti menn aðrar aðferðir en víða
annars staðar. „Það er verið að horfa
til þess að stýra álaginu með fjarlægð
á milli kvía og með því að skipta um
staðsetningar á milli kynslóða.“ En
samkvæmt frumvarpinu þurfa að
vera minnst fimm kílómetrar á milli
eldisstöðva.
Gríðarleg aukning
á næstu árum
Líkt og fram kom í upphafi grein-
ar eru firðir á Íslandi nokkuð ólíkir
mörgum fjörðum í Noregi – þeir
eru opnari fyrir öldum og sjógangi
auk þess sem ekki er um svokallaða
þröskuldsfirði að ræða. Þröskulds-
firðir eru firðir þar sem land rís við
fjarðarmynni sem gerir það að verk-
um að mun minni blöndun verður á
sjó í firðinum. Þegar ferskt vatn renn-
ur til sjávar getur saltari og þyngri
sjórinn sem undir er einangrast með
þeim afleiðingum að hann verður
súrefnissnauður sem ógnar bæði
eldisfiski sem öðru lífi í sjónum.
Sú aukning sem mun eiga sér stað
á næstu árum er mest í sjókvíaeldi á
laxi og silungi. Í áður nefndri skýrslu
nefndarinnar á vegum atvinnu- og
nýsköpunarráðuneytisins er tekið
saman hver staðan sé á sjókvíaeldi
á Vest- og Austfjörðum. Samkvæmt
henni eru nú þegar gild leyfi fyrir
allt að 30.000 tonna eldi í sjókvíum
á laxi, regnbogasilungi eða þorski á
Vestfjörðum og Austfjörðum. Eins
og tölurnar gefa til kynna eru þau
leyfi ekki nýtt nema að hluta enda
heildarframleiðsla á síðasta ári ekki
nema um 7.000 tonn. Það er ásamt
öllu landeldi sem er um helmingur.
Í vinnslu eða undirbúningi sé
aukning um allt að 65.000 tonn
sem háð sé umhverfismati. Það er
því ljóst að ef allar þessar umsóknir
standast umhverfismat og leyfin nýtt
verður aukningin í fiskeldi á næstu
árum og áratugum mjög mikil. n
Ásgeir Jónsson
asgeir@dv.is
Eldi í lokuðum kvíum
Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, líf-, umhverfis- og auðlindafræðingur, ritaði fyrr á árinu
grein á umhverfisfrettir.is um eldi í lokuðum sjókvíum í Noregi. „Ég tók þátt í ráðstefnu
þar sem norskur sérfræðingur, Geir Spiten, var að tala um lokaðar kvíar. Þá fór ég að
skoða þessar greinar sem hann vísaði í sem var kveikjan að greininni,“ en Birna segir
það hafa verið ljóst um nokkurt skeið að norskt laxeldi, sem er eitt það umfangsmesta í
heimi, geti ekki vaxið áfram óhindrað sökum mengunar og lúsar.
Í samtali við DV segir Geir Spiten að í Noregi standi nú yfir tilraunir hjá nokkrum fyrir-
tækjum með lokaðar kvíar, þar á meðal hjá eldisrisanum Marine Harvest. Spiten segir að
fiskur í lokuðu kerfi komi betur út í samanburði við þann í hefðbundnum opnum kvíum.
„Reyndar eru kostirnir frekar miklir. Vöxtur er hraðari þar sem hægt er að hafa betri stjórn
á umhverfinu og fiskurinn fer fyrr í slátrun,“ en Spiten segir að dæmi sé um „fullt ferli“ frá
útsetningu seiða til slátrunar á 12–13 mánuðum.
„Aðrir kostir eru fátíðar slysasleppingar, mun minni eða engin lús sem er mjög
kostnaðarsamt að eyða, betri fóðurnýting, betri stjórn á súrefni og auðvitað mun minni
mengun þar sem úrgangi er dælt á land í stað þess að hann falli til botns. Þá er kostnaður
sambærilegur eða jafnvel lægri auk þess sem hægt er að nýta úrganginn sem áburð eða
til lífgasvinnslu.“
Spiten segir að norskur eldisiðnaður verði að gera breytingar vegna þeirra áhrifa sem
hann hefur á náttúruna. „Hvort lokuð kerfi taki yfir veltur á þeim umhverfisáhrifum sem
við sættum okkur við. Ef iðnaðurinn nær tökum á lús og sleppingum gæti hann haldið
áfram á sömu braut en það er ólíklegt. Þetta mun taka þó nokkur ár eða áratugi. Nema
hreinlega að sett verði lög til að flýta ferlinu.“
Aðspurður hvort lokaðar kvíar myndu henta við íslenskar aðstæður telur hann svo
vera. „Hentugast væri að staðsetja þær þar sem hægt er að dæla upp hlýjum Atlants-
hafssjó í kvína til þess að hámarka vöxt.“
Spiten segir Íslendinga hafa haldið mun betur á spilun þegar kemur að umhverfis-
vernd en Norðmenn en mikilvægt sé að læra af mistökum þeirra og koma strax í veg fyrir
að sambærilegar aðstæður myndist.
„Fyrst og
fremst er
verið að einfalda
ferlið og innleiða
allra ströngustu
kröfur varðandi
umhverfismál
Fiskeldi á tímamótum
n Miklar breytingar á regluverki og hávær krafa um umhverfisvernd n Vöxtur í neyslu fisks allur frá eldi n Aðeins verið að nýta lítinn hluta gildra leyfa
„Aðrir kostir eru fátíðar slysa-
sleppingar, mun minni eða
engin lús, betri fóðurnýting, betri
stjórn á súrefni og auðvitað mun minni
mengun þar sem úrgangi er dælt á land.