Dagblaðið Vísir - DV - 29.08.2014, Blaðsíða 34
Helgarblað 29. ágúst–1. september 201434 Fólk Viðtal
sé allt hérna orðið fullt af vatni
og við séum bara fiskar á botnin-
um í fiskabúri. Kannski er vatnið
gruggugt. Kannski eru fleiri fiskar
að synda. Skynjunin verður allt
öðruvísi. Þá sé ég þig kannski sem
fisk. Þú ert svona fjörugur, sterkur
fiskur – kannski sverðfiskur,“ segir
hann og virðir blaðamann fyrir sér.
„Þú verður að treysta því að þetta sé
rétt. Annars gengur þetta ekki.“
Fiskabúrið er bein tilvísun í
persónuna Móra, rithöfundinn
drykkfellda í kvikmyndinni Vonar-
stræti, en hann var að skrifa bók
sem bar nafnið Lífið í fiskabúrinu.
Enskt heiti myndarinnar er jafn-
framt Life in a Fishbowl. Þorsteinn
segist hafa notað þessa nálgun í
myndinni. „Af hverju ekki að nota
upplýsingarnar sem eru í hand-
ritinu en bara á ævintýralegan hátt.
Þegar ég hitti Þorvald Davíð á barn-
um sem dæmi þá var hann bara
einhver gúbbífiskur í fiskabúrinu.“
Ekki viðræðuhæfur í tökum
Aðspurður hvort hann hafi ekki haft
neinar raunverulegar fyrirmynd-
ir við persónusköpun Móra segist
Þorsteinn muna eftir einum manni
sem hafði mikil áhrif á hann. „Ég
hitti einn beygðan og brotinn mann
fyrir utan Íslandsbanka í Lækjar-
götu þegar ég var að koma út úr
bankanum stuttu áður en tökur
hófust. Hann bað mig um að gefa
sér fimm hundruð krónur. Ég sagði
við hann: „Já – ef þú getur reist
höfuðið upp og litið upp í heiðan
himininn.“ En hann gat það ekki,“
segir Þorsteinn. „Það var bara eitt-
hvað sterkara afl sem togaði hann
niður en upp.“
En hvernig leikari er Þorsteinn?
Er hann til dæmis alltaf í karakter
meðan á tökum stendur? „Það er
alveg þekkt á mínu heimili, og ég fæ
mikinn stuðning frá konunni minni
varðandi það, að þegar ég er í tök-
um er ég ekki viðræðuhæfur,“ svarar
hann. „Ég reyni að fá eins mikið
næði og ég mögulega get á tökustað
frá öllu óþarfa áreiti. Mín aðferð er
sú að ég mæti með jógadýnu og bið
um afdrep þar sem ég get verið út
af fyrir mig. Síðan hlusta ég á tón-
list og er með stór heyrnartól svo
það fari ekki á milli mála að ég er
að hlusta á tónlist. Þannig losna ég
við allt dægurþras á tökustað. Fyrir
Vonarstræti hlustaði ég mikið á tón-
listina sem var komin í myndina því
tónskáldið var byrjað að semja. Það
fannst mér mjög gott og ég tek eftir
því þegar ég sé myndina að skapið
sem ég er í er í samræmi við tón-
listina.“
Fær mikið út úr kennslunni
Þorsteinn ákvað það strax eftir leik-
ritið í Verzló að hann vildi miðla
reynslunni til annarra og hefur
kennt leiklist samhliða sínum verk-
um allar götur síðan. Hann hef-
ur haldið fjölda sjálfstæðra nám-
skeiða og þá hefur hann kennt við
Kvikmyndaskólann frá árinu 2009.
Nemendur hans eru nú fleiri þús-
und talsins, að hans sögn. „Ég hef
ekki viljað vera á föstum samningi
hjá leikhúsum að undanförnu því
það væri í andstöðu við að setja
kvikmyndir á oddinn. Ef ég væri
samningsbundinn leikhúsi þyrfti
ég kannski að hafna verkefni. Hins
vegar vill maður ekki heldur sitja
við símann allan daginn og bíða
eftir að hann hringi. Þess vegna
hefur reynst mér mjög vel að geta
gripið í kennsluna. Ég fæ líka mjög
mikið út úr henni og hún heldur
mér við efnið. Þetta er eins og með
píanóleikara eða málara, maður
þarf alltaf að vera að til þess að
staðna ekki.“
Eyðileggur ekki minningar
Á námskeiðunum kennir Þor-
steinn nálgunina sem hann lýs-
ir hér að framan, það er að vinna
með óáþreifanlegar skynjanir og
virka hugleiðslu. „Það er svo miklu
áhrifameira,“ segir hann. „Segj-
um sem svo að maður þurfi að
gráta. Þá eru til tvær meginleiðir.
Önnur leiðin er að hugsa um eitt-
hvað sorglegt eins og dauða ömmu
minnar. Þá kalla ég fram minn-
inguna og finn söknuðinn. En ég
get ekki notað þetta endalaust. Það
virkar kannski í fyrsta skipti en síð-
an þornar það upp og fer að verða
einhver rembingur. Að auki er ég
búinn að eyðileggja þessa fallegu
persónulegu minningu. Ég hef því
alveg snúið baki við þessari aðferð.
Hin leiðin er að nota skynjun. Ég
ímynda mér til dæmis að hjartað á
mér sé á leiðinni út úr bringunni,
og þetta er hjarta sem slær, ég finn
fyrir því og skynja það,“ segir Þor-
steinn með áhrifamiklum hætti og
myndar grip með annarri höndinni
líkt og hann haldi á hjartanu. „Svo
byrjar hjartað allt í einu að falla og
hrapa niður, og það er eins og það
sé að sogast ofan í einhverja kvörn,
sem byrjar að éta það allt upp,“ segir
hann með grátkæfðri röddu – gjör-
samlega dottinn inn í skynjunina.
Ekkert helvítis innra líf
„Ef það er eitthvað sem ég hef lært í
gegnum leiklistina þá er það hversu
gríðarlega öflugt ímyndunaraflið
og sköpunarkrafturinn er. Sköp-
unarkrafturinn býr ekki bara í sum-
um okkar heldur okkur öllum. Við
höfum mismunandi gott aðgengi
að honum því við erum flest búin
að afneita honum eða við skömm-
umst okkar fyrir hann. Við erum
búin að gleyma því hvernig það er
að vera barn sem leikur sér. Einn
besti kennari sem ég á í dag er fimm
ára dóttir mín. Hún kemur heim og
á örskotsstund er hún komin inn í
annan heim. Það er mjög heillandi.
En vegna samfélagslegra skilyrða
eða uppeldis erum við mörg farin
að skammast okkar fyrir sköpunar-
kraftinn. Ég get tekið undir með
Nelson Mandela að það er ekki
myrkrið sem hræðir okkur heldur
ljósið. Við óttumst mest að skína
og vera falleg og guðdómleg,“ segir
Þorsteinn skáldlega.
Hann segist alltof lengi hafa tek-
ið mark á leikstjórum sem sögðu
honum að það væri engin karakt-
ersköpun. „Ég hef verið lokaður úti
í horni inni í leikhúsi og mér verið
sagt að vera ekki með neitt helvítis
innra líf hérna á sviðinu. En ég vil
nálgast þetta öðruvísi. Ég vil hafa
innra líf og fá að búa til karakt-
er. Þeir sem hafa áhuga á að vinna
með mér verða bara að taka því,“
segir hann.
Alltaf hægt að gera betur
Kvikmyndin Vonarstræti hefur átt
afar góðu gengi að fagna og kepp-
ir til að mynda um tvenn verðlaun
á kvikmyndahátíð í Toronto í byrjun
september. Þá hefur frammistaða
Þorsteins í myndinni verið á allra
vörum í sumar. „Þorsteinn Bach-
mann á stórleik í hlutverki Móra.
Hver einasta tjáning er úthugsuð.
Móri er kaldhæðinn og seigur í
hreyfingum og heldur áhorfand-
anum í gíslingu með augnatillitinu
einu saman,“ segir meðal annars í
kvikmyndarýni DV frá því í maí.
Þorsteinn segir velgengnina
hafa komið sér á óvart. „Ég kvíði
alltaf frumsýningum,“ segir hann.
„Kannski því maður veit að það er
alltaf hægt að gera betur. Maður
er alltaf að leita eftir því fullkomna
en á sama tíma þarf maður að hafa
æðruleysið til þess að skilja að ver-
öldin er ekki fullkomin. Ég man að
við sátum í salnum í Háskólabíói,
ég, Hera Hilmarsdóttir, Baldvin Z
leikstjóri, Jói tökumaður, Hulda
hljóðmaður og svo mixermaðurinn
í bíóinu. Við vorum bara sex í saln-
um, tveimur dögum fyrir frumsýn-
ingu og ég horfði á þetta alveg fros-
inn til enda. Ég braut síðan þögnina
að mynd lokinni og sagði: „Hvað
segiði? Haldiði að þetta sé í lagi?
Við getum ekkert gert úr þessu“.“
En finnst Þorsteini hann þá hafa
getað gert betur? Hann hugsar sig
um í góða stund áður en hann svar-
ar spurningunni. „Það er alltaf eitt-
hvað sem maður sér,“ segir hann
síðan. „Eftir á að hyggja, og í kjöl-
far þessara viðbragða, þá væri bara
frekja að ætlast til þess að mað-
ur geti gert þetta einhvern veginn
betur,“ segir hann og bætir því við
að fleiri hundruð manns hafi haft
samband við hann í sumar, bæði
bréfleiðis og símleiðis, og lýst því í
mikilli einlægni hversu djúpstæð
áhrif myndin hafði á þau.
Besta handrit ævinnar
Þegar Þorsteinn er inntur eftir því
hvort frammistaða hans í Vonar-
stræti hafi skapað honum aukin
tækifæri játar hann því. „Í sum-
ar las ég fleiri handrit en nokkurn
tíma áður og hef þurft að hafna ein-
hverjum verkefnum. Það er auð-
vitað lúxusvandamál en samt sem
áður erfitt fyrir mann sem á erfitt
með að segja nei. Ég mun bara
reyna að halda í það sem ég hef
verið að gera. Kvikmyndaverkefn-
in verða áfram í forgangi og þá mun
ég halda áfram að kenna. Ég er ný-
búinn að lesa nýjasta handritið
hans Baldvins og það er bara besta
handrit sem ég hef lesið á ævinni,“
segir Þorsteinn og lýsir í kjölfarið við
hvaða óvenjulegu kringumstæð-
ur hann las handritið. „Ég vaknaði
klukkan þrjú um nótt og asnaðist
til þess að byrja að lesa handritið
því ég á svo auðvelt með að sofna
út frá handritum og bókum. En
ég rankaði bara við mér klukkan
korter í sex í ísköldu herbergi því
ég hafði ekki einu sinni haft rænu
á að standa upp og loka gluggan-
um. Þarna sat ég bara á nærbux-
unum og las allt handritið. Ég var
með hrollinn bæði upp úr og nið-
ur úr. Þetta verður rosaleg mynd,“
segir Þorsteinn en áætlað er að tök-
ur á myndinni hefjist árið 2016.
Kvikmyndin sem um ræðir er með-
al annars innblásin af lífi Sigrúnar
Mjallar, dóttur fréttamannsins Jó-
hannesar Kr. Kristjánssonar, sem
lést árið 2010 eftir harða baráttu við
eiturlyf og þann heim sem honum
fylgir. Þetta er mannleg harmsaga
um ástir og örlög tveggja unglings-
stúlkna sem verða sprautufíkninni
að bráð. Þorsteinn mun leika föður
annarrar stúlkunnar.
„Ég hef þekkt Baldvin frá því ég
var á Akureyri árin 2003–2005 og ég
hef sagt við hann að ég sé alltaf til í
að leika hjá honum. Hann þurfi ekki
einu sinni að senda mér handritið,“
segir Þorsteinn og hlær. „En auðvit-
að þarf hann að gera það svo ég geti
lært textann.“
Mörg járn í eldinum
Enn sem komið er hafa öll tilboðin
verið innlend en Þorsteinn segist
ekki stefna á neina Hollywood-sigra.
„Ég legg aðaláhersluna á að eiga gott
fjölskyldulíf. Ég er orðinn of gam-
all til þess að kasta öllu frá mér fyrir
frægð og frama,“ segir hann og bæt-
ir við að ef mögulegt væri að sam-
ræma erlend verkefni og hefðbund-
ið fjölskyldulíf þá þætti honum það
spennandi. „Ég er allavega ekkert
að fara að flytja út eða neitt þannig.
En ég held samt að þetta sé allt að
opnast. Við erum til dæmis að fara
til Toronto með Vonarstræti og það
er aldrei að vita nema eitthvað komi
út úr því. Kannski vill einhver vera
umboðsmaður manns. Ég væri al-
veg opinn fyrir því.“
Kóngurinn bíður
„Jæja, maður getur víst ekki látið
kónginn bíða eftir sér,“ segir Þor-
steinn kíminn undir lok viðtals
og reisir sig við í sætinu. Tíminn
hefur flogið frá okkur og leikar-
inn er að verða of seinn á fund við
Baltasar Kormák. Undirbúningur
fyrir nýja leikna þáttaröð, Ófærð,
stendur sem hæst en þar fer Þor-
steinn með nokkuð stórt hlutverk.
Af öðrum komandi verkefnum má
nefna Stelpurnar og fjórðu þátta-
röðina af Pressu en báðar þáttar-
aðir verða teknar upp í vetur. Þá
fer Þorsteinn einnig með hlutverk
í kvikmyndinni Bakk eftir Gunnar
Hansson en kvikmyndahúsagestir
munu næst sjá hann í Afanum sem
frumsýnd verður í september. Það
er því ljóst að Þorsteinn Bachmann
mun ekki hverfa úr kastljósinu á
næstunni. n
Dellukarl „Ég tek oft skorpur og ég lít svo á að ég sé að læra eitthvað nýtt og tileinka mér það.“
„Einn besti
kennari
sem ég á í dag
er fimm ára
dóttir mín