Són - 01.01.2008, Side 14
HELGI SKÚLI KJARTANSSON14
43 Nú em eg svo fegin
fundi okkrum
sem átfrekir
Óðins haukar
er val vitu,
varmar bráðir,
eða dögglitir
dagsbrún sjá.
Vísan er merkilega áþekk hinni um askinn og dýrkálfinn. Fögnuði
Sigrúnar er lýst með tvöfaldri líkingu, fyrst af græðgi hræfugla og er
henni gefin hómersk útvíkkun þar sem hrafnarnir vilja komast á
hræið volgt (en í næstu vísu lætur Sigrún nákuldann af Helga ekki á
sig fá). Seinni líkingin er tengd með „eða“ eins og sú um dýrkálfinn,
og í báðum er næturdöggin merkingarþrungið tákn. Sá sem liggur úti
er að morgni „döggu slunginn“ eða „dögglitur“ en á líka að fagna
deginum – eða lífinu – framundan. Eins segir elskhugi Ljóðaljóð-
anna: „Höfuð mitt er alvott af dögg, hárlokkarnir af dropum nætur-
innar“ (5:2), og á þá ástarfund fyrir höndum.
Lífið framundan, það eiga elskendur Ljóðaljóðanna. Súlammet,
unnustan unga, þekkir hvorki dauða né missi, aðeins óþreyjunni
deilir hún með Sigrúnu, valkyrjunni, móðurinni og ekkjunni. „Kysstu
mig kossi vara þinna“ (1:2) eru upphafsorð hennar. Þegar hún hefur
leitað unnustans um nótt „fann ég þann sem sál mín elskar; ég hélt
honum, sleppti honum ekki fyrr en ég hafði leitt hann í hús móður
minnar … “ (3:4). Sigrúnu er ekki heldur bið í hug:
44 Fyrr vil eg kyssa
konung ólifðan
en þú blóðugri
brynju kastir.
Hár er þitt, Helgi,
hélu þrungið,
allur er vísi
valdögg sleginn …
Hér kemur daggartáknið enn – en nú dauðanum merkt. Döggin er
valdögg = blóð, og lokkar Helga eru ekki lengur dögglitir eða döggu
slungnir – eða „alvotir af dropum næturinnar“ – heldur „hélu þrungn-
ir“ af kaldri nálægð dauðans. En Sigrún lætur ekkert slá sig út af lag-