Són - 01.01.2008, Síða 15
SÚLAMMÍT OG SIGRÚN VALKYRJA 15
inu, býr þeim Helga hvílu í haugi hans og vill sofa í faðmi hans eins
og lifandi manns. Hvorki dauðum né lifandi hafði honum komið neitt
svo á óvart:
48 Nú kveð eg enskis
örvænt vera,
síð né snimma
að Sefafjöllum,
er þú á armi
ólifðum sefur, …
Að „sofa á armi“ karlmanni, í kynferðislegri merkingu, er orðalag
sem kemur víðar fyrir í eddukvæðum. En svo vill til að það á sér líka
hliðstæðu í Ljóðaljóðunum: „Vinstri hönd þín undir höfði mér, hin
hægri faðmi mig“ (2:6).
Átök ástar og dauða má kalla þungamiðju Helgakviðu: hvernig
sjálfur dauðinn hopar fyrir valdi ástarinnar – þótt í norrænni tragík11
sé sigurinn auðvitað hans. Ljóðaljóðin dvelja ekki við svo dapurleg
úrslit en þau stilla upp sömu andstæðunum og átökum þeirra: „því að
ástin er sterk eins og dauðinn og ástríðan vægðarlaus sem hel“ (8:6).
IV
Hér er sem sagt ýmislegt áþekkt. Allt er það í síðasta hluta Helga-
kviðu, vísum 36–51,12 þar sem Helgi er fallinn og Sigrún búin að
hella sér yfir banamann hans með bölbænum. Héðan í frá teflir
Sigrún ekki ást sinni gegn ættarskyldum heldur gegn dauðanum sjálf-
um. Þetta eru ekki nema sextán vísur, þar af sjö lagðar í munn
Sigrúnu sjálfri, og eru líkindin við Ljóðaljóðin næstum einskorðuð við
þær. Miðað við þær einar eru snertipunktarnir við Ljóðaljóðin býsna
margir, jafnvel svo að telja megi þá einkennandi fyrir tjáningu Sigrún-
ar í þessum hluta kviðunnar.
11 Í norrænni kómík er það Þór sem á hliðstæða glímu við Elli kerlingu, engin farsæl
sögulok þar heldur.
12 Hér tel ég vísur 36–38 til lokakaflans, ólíkt t.d. Einari Ól. Sveinssyni (Ísl. bókm. í
fornöld, bls. 433). Hef ég það fyrir mér að í 36. vísu svarar Sigrún á engan hátt þeim
orðum sem beint er til hennar í vísunni á undan heldur fer hún þar að hugsa sér
endurkomu Helga með fríðu föruneyti, eins og gengur eftir í vísum 40–41. Á
hvorum staðnum sem þátturinn byrjar er hann að tali EÓS hinn síðasti af sex hlut-
um kviðunnar.