Són - 01.01.2008, Page 41
LIST Í LOKRUM 41
Skil milli heima?
Í Gylfaginningu er svo sagt frá ferð Þórs frá bóndanum:
Lét hann þar eptir hafra ok byrjaði ferðina austr í Jötunheima
ok allt til hafsins, ok þá fór hann út yfir hafit þat it djúpa. En er
hann kom til lands þá gekk hann upp ok með honum Loki ok
Þjálfi ok Röskva.29
Manni kynni að detta í hug að ferð yfir hafið væri gott tækifæri til
þenslu á sögunni en rímnaskáldið virðist ekki hafa verið þeirrar
skoðunar því að hafsins er að engu getið í rímunum. Þetta kann að
þykja óvænt í frásögn sem er, sérstaklega framan af, ítarlegri en sú í
Snorra-Eddu. Vitanlega væri hægt að skýra mismuninn þannig að
vísa eða vísur hefðu fallið brott úr rímunum eins og þær eru varð-
veittar. Eins mætti segja að þetta væri einfaldlega yfirsjón skáldsins.
Slíkar skýringar hljóta þó alltaf að vera þrautalending eftir að skýr-
andinn kemst í þrot við að túlka textann eins og hann kemur fyrir.
Til að skýra hvers vegna rímnaskáldið sleppir hafinu tel ég rétt að
athuga hvaða tilgangi það gegnir í Gylfaginningu. Þar markar hafið
það hið djúpa skörp skil milli heima. Áður en Þór fer yfir hafið er
hann í kunnuglegum heimi goðanna en hinum megin, í Jötunheimum
og við Útgarða, verður allt stórskorið, undarlegt og óviðráðanlegt.
Sverrir Tómasson setti fram athugasemd sem á vel við hér.
Fyrir rímnaskáldunum er Jötunheimur og Ásgarður ein veröld,
kannski eilítið fjarlægari en Bjarmaland.30
Rímnaskáldið hefur ekki sömu þörf fyrir hafið og Snorri í Gylfa-
ginningu. Í rímunum er, eins og hér hefur verið rökstutt, þegar byrj-
að að vekja efasemdir lesandans um Þór í atburðunum hjá bónd-
anum. Auk þess virðast bóndinn og heimafólk hans vera jötnar. Í
rímunum eru því engin skörp skil milli atburðanna hjá bóndanum og
þeirra sem eftir fylgja í sögunni.
29 SnE (1988:37).
30 Sverrir Tómasson (1996:31).