Són - 01.01.2008, Page 43
LIST Í LOKRUM 43
þar sem hann er almennt varfærnari með leiðréttingar. Honum hefur
því fundist leiðréttingin nauðsynleg og ekkert vit í því að fyrst sé sagt
að Þór þegi við og svo strax í næsta vísuorði að hann taki til máls.
Ég er ekki viss um að þetta sé nauðsynleg leiðrétting. Að þegja við
er að verða þögull sem viðbragð við einhverju sem hefur gerst, sér í lagi
getur það þýtt að svara ekki þegar á mann er yrt. Í þessu tilfelli merkir
það að Þór tekur ekki undir kveðju Skrýmis. Hitt er samt ekki óeðlilegt
að það næsta sem gerist sé að sá sem þagði við taki til máls. Þetta er
ekki ósvipað og í þriðju rímu þegar Útgarða-Loki ræðir við Æsina.
III 14 Öðling frá eg svó orðum veik,
Ásar urðu hljóðir,
„hafi þér nokkurn listar leik
langt yfir *aðrar þjóðir?“
* aðrar] < adra, leiðr. FJ
15 Svaraði Lóður en sveit var kát,
sá má fæstu leyna,
„þreyta mun eg við þegna át,
ef það vill nokkur reyna.“
Þarna er sagt að Æsir verði hljóðir en þó er það næsta sem gerist að
einn þeirra tekur til máls og svarar spurningunni. Ég held að bæði
þessi tilfelli megi túlka út frá setningunni „þöglir flýðu þussar land“ í
upphafi rímnanna. Þess er aldrei getið í rímunum að jötnarnir verði
þöglir en á tveimur stöðum er sagt að Æsir þegi eða verði hljóðir.
Þessir staðir eru því hluti af íronísku fjarlægðinni milli upphafs-
erindanna og atburðarásar rímnanna. Að breyta öðrum þessara staða
þannig að merkingin snúist í hina áttina er ekki til bóta.
Athyglisvert er svar Þórs þegar Skrýmir spyr hann hvert ferðinni
sé heitið.
II 21 Þess skal eg sækja fylkirs fund,
er fyrr vann sigr til dáða,
fyr Útgörðum með ítra lund
öðling ætti að ráða.
með ítra] svo FJ, ólæsilegt í ljóspr. hdr.