Són - 01.01.2008, Page 55
SAGA MÍN ER SÖNN EN SMÁ 55
hjá fólki góðu.“23 Svo miklu máli skiptir samastaðurinn hana að hún
veltir því fyrir sér hvort ævisaga hennar hefði ekki orðið önnur ef hún
hefði alltaf átt heima þar:24
Hefði ég dvalið eyju á
alla mína lífsins daga,
veit Guð einn, hvort væri þá
veglegri mín ævisaga.
Í ævikvæðinu lýsir hún veikindum og sjúkrahúsvist, einnig mikilli
vinnu fyrir sér og nýfæddu dótturinni: „Víst þá furðu vel mér gekk. /
Vakti eg oft fram eftir nóttu.“25 Húsnæði kemur oft við sögu. Unu
langar að eignast eigið hús og henni tekst það með því að vinna mikið
á vertíðum og selja fæði. Eitt af því sem einkennir ævi Unu er að karl-
ar koma þar vart við sögu nema sem fjarverandi. Þó minnist hún í
einu erindi á mann sem guð sendir henni og flyst til hennar í húsið:
„Sex nú árin hefur hann / hjá mér búið dyggðum meður.“26 Una
hefur eignast það sem hún þráir, öruggan samastað í eigin húsi, góðan
mann og dæturnar sem hún fær til sín aftur: „Húsinu í ég hafði þá, /
heldur góðar raunabætur.“27
Ævikvæðið yrkir Una árið 1929, það er sama ár og bókin kemur
út, og með því telur hún lífi sínu lokið: „Saga mín nú enduð er.“28 Hún
hefur skrifað sig frá „raunum“ sínum sem hún segist vilja gleyma og
kvæðið endar hún á von um endurfundi við föður og móður sem hún
hefur misst, sex systkini og tvær dætur. Í lokaerindinu rímar hún Krist
við himnavist og biður um gott húsnæði á himnum.
Ljóð sín yrkir Una fyrir konur og bókina tileinkar hún þeim um
leið og hún leggur áherslu á eigin persónu og höfundarnafn:29
Þetta litla ljóðasafn
legg ég fyrir sprundir,
held ég það mitt hafi nafn,
hvar sem fer um grundir.
23 Una Jónsdóttir 1929:44.
24 Una Jónsdóttir 1929:46.
25 Una Jónsdóttir 1929:44.
26 Una Jónsdóttir 1929:45.
27 Una Jónsdóttir 1929:45.
28 Una Jónsdóttir 1929:46.
29 Una Jónsdóttir 1929:70.