Són - 01.01.2008, Side 61
SAGA MÍN ER SÖNN EN SMÁ 61
„sokka bætt, / saumað, prjónað, spunnið“.49 Meðan „fullt var fjör“50
rúði hún fé, sló gras, varði tún, hreinsaði dún, mokaði tað, klauf
svörð, tíndi ber, hnýtti net, reri bát, steypti kerti, sneri kveik, herti
fisk, reytti fugla, gerði skó, elti þvengi. Hvert starfið tekur við af öðru
eins og harmar kvennanna í hetjukvæðum Eddu og þannig má líta á
kvæði Herdísar sem dulið tregróf.
Að lokum dregur hún ævi sína saman í eftirfarandi niðurstöðu:51
Þó gæfist mér ei gull í mund
og grátt mig léki þörfin,
eg hef marga yndisstund
átt við hversdagsstörfin.
Þetta lokaerindi ævikvæðisins, áður en hún kveður börnin og sendir
þau burt, hefst á tengingunni þó, þeirri sömu og kvæðið byrjar á.
Þannig verður það að einni stórri úrdráttarsetningu sem afbyggir
eigin staðhæfingar um gæfuna sem felst í erfiðisvinnunni. Hér er
einnig óvanalega sterkt til orða tekið þar sem þörfin rímar við störfin og
verður ekki frá þeim slitin. Hvað það er sem Herdís frekar óskar sér
kemur hvergi fram beinlínis nema ef vera skyldi í eftirfarandi erindi
þar sem hún sleppir ekki bókinni fremur en vinnunni allan ársins
hring:52
Vetur, sumar, vor og haust
varð eg öðrum þjóna,
sagnakverið lét ei laust,
las við rokk og prjóna.
Þá segist hún hafa lagt margt á minnið sem hún hafi heyrt á förnum
vegi og „stundum af því sögur sagt / sveinum, meyjum, börnum,“53
og á öðrum stað nefnir hún „vers og bænir“.54 Hlutverk hennar er
að flytja þennan þjóðlega fróðleik milli kynslóða og er kvæðið liður
í því. Einnig vísar „sagnakverið“ til slíkra fræða fremur en skáld-
sagna sem á hennar tíma þóttu ekki heppilegt lestrarefni fyrir
49 Herdís Andrésdóttir 1976:304.
50 Herdís Andrésdóttir 1976:305.
51 Herdís Andrésdóttir 1976:308.
52 Herdís Andrésdóttir 1976:306.
53 Herdís Andrésdóttir 1976:306.
54 Herdís Andrésdóttir 1976:307.