Són - 01.01.2008, Page 72
HELGA KRESS72
sónulegt og lýsingar almennar. Það kemur til dæmis hvergi fram í
hverju draumarnir felast. Um þá er þagað í kvæðinu eins og einnig í
lífinu. Kannski vildi hún ekki láta vita meira um sig. Skáldkonan sem
hér yrkir um sjálfa sig dána er sjálf dáin, og kvæðið er því á vissan
hátt kveðið úr gröf. Það endar líka á kirkjugarðsmynd en í kirkju-
garðinn var ferðinni heitið:
Loks var hún flutt á fornar slóðir,
í frjóa mold og kirkjugarðinn.
Barn var hún ætíð, ung og gömul,
örfáar stökur minnisvarðinn.
Þetta er sami endir og í „Yfirliti“. Það eina sem hún lætur eftir sig og
á hana minnir er skáldskapurinn, þótt í smáu sé, aðeins „örfáar
stökur“. Þessar stökur minnist hún á í bréfi til Frímanns bróður síns,
dagsettu á Sauðárkróki 14. október 1952:
Ég á hér heima hjá mér nokkurt samsafn af stökum o.fl. sem ég
vil sameina sem mest. Þó allt sé þetta samsull mitt lítilsvirði vildi
ég ganga frá því, svo að það væri ekki aðeins á lausum blöðum,
því ekki er óhugsandi að einhver hefði stundargaman af að fara
yfir það.87
Þetta er sá minnisvarði sem hún reisir sér sjálf og er hennar síðasta
æviverk. Minnisvarðinn í eftirmælunum er írónískur því að hann er
ekki í kirkjugarðinum, heldur ósýnilegur og annars staðar. Hann er í
tungumálinu og skáldskapnum og fallega skrifuðu stílabókunum sem
Ólína lét eftir sig og varðveittar eru á Landsbókasafni Íslands.
HEIMILDIR
ÓPRENTAÐAR HEIMILDIR
HSk 2116, 4o. Bréf til Frímanns Jónassonar frá Ólínu Jónasdóttur.
HSk 354, fol. Draumar og vísur Ólínu Jónasdóttur. Kalkerað vélrit með
nokkrum leiðréttingum og viðbótum m.h. Ólínu sjálfrar.
Lbs 3932, 4to. Ólína Jónasdóttir. Ljóðasyrpur.
87 HSk 2116, 4to.