Són - 01.01.2008, Side 77
Hannes Pétursson
Gleymd þýðing
1
Ég hef fyrir framan mig snotra vasasöngbók sem nú mun orðin
sjaldséður prentgripur. Hún var gefin út í Reykjavík árið 1936 af
Karlakór verkamanna, heitir Vakna þú Ísland og ber undirtitilinn
Söngvar alþýðu.
Samkvæmt efnisskrá eru textar kversins 52 að tölu (en réttilega 53,
því tvær sjálfstæðar stökur frá gömlum tíma voru settar undir einu og
sömu fyrirsögn), ýmist frumortir eða þýddir.
Heiti söngbókarinnar er sótt í Vorhvöt, hið rómaða þjóðfrelsisljóð
Steingríms Thorsteinssonar, og er erindum úr því ljóði skipað fremst.
Fríð fylking manna á efni í söngbókinni. Höfundar úr flokki hinna
eldri skálda, aðrir en Steingrímur, eru þessir, taldir upp í stafrófsröð:
Bólu-Hjálmar, Einar Benediktsson, Gestur Pálsson, Guðmundur
Guðmundsson (skólaskáld), Guðmundur Magnússon (Jón Trausti),
Jón Thoroddsen, Jón Þorkelsson (Fornólfur), Sigurður Breiðfjörð,
Þorsteinn Erlingsson. En höfundar úr röð yngri manna, taldir upp
með sama móti, eru meðal annarra þessir: Ásgeir Bjarnþórsson,
Halldór Stefánsson, Jóhannes úr Kötlum, Jón Rafnsson, Jón Thor-
oddsen (yngri), Sigurður Einarsson, Steinn Steinarr, Sveinbjörn Sigur-
jónsson.
Flesta söngtexta í kverinu eiga Þorsteinn Erlingsson og Jóhannes
úr Kötlum, fimm hvor.
Formáli er fyrir textasafninu, saminn í nafni Karlakórs verka-
manna (undirritun: Karlakór Verkamanna). Lítill vafi leikur á því að
formáli þessi er ritaður af Hallgrími Jakobssyni (1908–1976) sem
stjórnaði kórnum á árabilinu 1933–1940, var söngkennari í Austur-
bæjarskólanum í Reykjavík frá 1945 til dauðadags og fékkst við
sönglagagerð.
Vasasöngbækur eru sérstök tegund ljóðasafna, settar saman út frá
mjög mismunandi sjónarmiðum. Ég hef ekki kannað hvenær þær
koma fyrst upp hérlendis, en víst er að þær urðu vinsælar meðal