Són - 01.01.2008, Blaðsíða 128
HELGA BIRGISDÓTTIR128
Annars mega ljóð svo sem vera um hvað sem er, segir Ingólfur
Gíslason, „líka drasl sem maður trúir ekki á / ég las það á netinu“.3
Þórarinn Eldjárn brýnir hins vegar fyrir okkur að festast ekki í
klisjunum og virkja ímyndunaraflið og segir að til að geta ort sé
nauðsynlegt að hafa „heilafylli hugvits / sálarfylli siðvits“ og fáeina
aska af bókviti.4
Önnur skáld skilgreindu ljóðið, t.d. Stefanía G. Gísladóttir sem
segir ljóðið vera „grágrýti / hjúpað glitvef / margvíslegra lita“5, að það
skjótist „inn í tötralegan / hvunndaginn“6 þar sem það skrýðir hann
gliti en hverfi síðan sporlaust. Sjórinn sjálfur er hins vegar „ljóðakista
/ falin á / hafsbotni“.7
Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson hefur engar áhyggjur af stöðu
ljóðsins ef marka má „Ljóðaflóð“ þar sem ljóðið hreinlega iðar af lífi:8
Þungbúin hafa ljóðin hlaðist upp, tímanum ekki tekist að vinna
á þeim. Í myrkrinu byrja þau að bólgna, tútna út, draga í sig
kjark, hallast að næsta ljóði, fallast í faðma, kallast á við hvert
annað. Saggafull ljóð í rökkvuðum kjallarakompum. Hver veit
hvað gerist þegar ljóð heimta annað líf? Þau skríða af stað eftir
köldum gólfum, þukla á þvölum og hrjúfum veggjum, staulast
undir stigaop og stöndugar tröppur, tilbúin að lyfta sér á kreik,
full af hugrekki, vilja til að ferðast, fljúga af stað, úr sneisafull-
um kjallaranum.
Fyrir utan ljóð um skáldskap og stöðu ljóðsins ortu skáldin á því herr-
ans ári 2007 bæði um nýja hluti og gamla, á gamalkunnan og nýstár-
legan máta. Reynd skáld á borð við Þórarin Eldjárn, Steinunni Sig-
urðardóttur og Sjón sendu frá sér bækur á árinu en líka aðrir og yngri
sem stigu sín fyrstu og önnur skref í útgáfuheiminum. Þessi skáld
tipluðu þó alls ekki á tánum heldur stöppuðu niður fótum og komu
öskrandi fram á leiksviðið.
3 Ingólfur Gíslason (2007:71).
4 Þórarinn Eldjárn (2007:14).
5 Stefanía G. Gísladóttir (2007:30).
6 Stefanía G. Gísladóttir (2007:17).
7 Stefanía G. Gísladóttir (2007:54).
8 Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson (2007:63).