Són - 01.01.2008, Blaðsíða 129
LJÓÐ SEM BÍTA, ÖSKRA, STRJÚKA OG HVÍSLA 129
Um land
Landið og landslag er skáldum yrkisefni, bæði í eiginlegri og óeigin-
legri merkingu. Ort er um fegurð landsins, tengingu þess við menn-
ingu og bókmenntir, hætturnar sem leynast á hverju strái og þá ógn
sem að landinu sjálfu steðjar. Margvísleg gildi náttúrunnar virðast
skáldunum hugleikin og þótt Þórarinn Eldjárn skopist að þeirri
hneigð íslenskra skálda að gera fjallið að virðulegu tákni gerir hann
það líka sjálfur. Náttúruljóð er að finna í fjölmörgum ljóðabókum
ársins 2007 en mest áberandi eru þau í bókum Þórarins Eldjárns,
Steinunnar Sigurðardóttur og Gerðar Kristnýjar.
Fjöllin verða að duga eftir Þórarin Eldjárn skiptist í sjö hluta með sjö
ljóðum í hverjum, bæði hefðbundnum að formi og frjálsum, en í síð-
asta hlutanum er aðeins að finna prósaljóð. Öll helstu og bestu ein-
kenni Þórarins sem skálds koma fram í bókinni: orðfimi hans, vald
hans á tungunni og formi – bæði bundnu og óbundnu. Í bókinni
spinnast saman ljóð um land, ljóð, orð og bókmenntir svo fátt eitt sé
nefnt.
Í ljóðinu „Speglun“ kemur það fram að fjöllin verði að duga og
með þessum orðum afhelgar Þórarinn Eldjárn vissulega eitthvað tign-
asta (og ofnotaðasta) tákn íslenskrar menningar. Þórarinn er býsna
skondinn en um leið sér hann hið skáldlega og rómantíska í hvers-
dagslegustu hlutum, meira að segja Edduhótelunum þar sem „enn er
keimur / af yddi og nöguðum eplum / í öllum hornum / og loftið
þykkt / af uppsafnaðri heimþrá“.9
Fjöllin koma víða við sögu, t.d. í „Tröllaskaga“ þar sem hlátra-
sköll tröllanna eru hljóðnuð og „Landslagi textans“10 þar sem ljóð-
mælandi fer yfir sögusvið „eigi allfárra / Íslendingasagna“. Í „Skugg-
um“11 kvöldar snemma undir fjallinu og ekkert dugar til að hindra
skuggana, „hvorki garðar / né gaddavír“ en þess er þó getið að skugg-
inn fellur aldrei á „nema í sól“. Það eru rómantískar stemningar í
þessum ljóðum, svolítið gamaldags, og virðist mér Þórarinn vera að
leita að stað handa manninum og málinu í „málóðum heimi“. Annað
ljóð um land, og öllu nútímalegri stemningu, er „Akstur“12 sem er lýs-
ing á þægilegum akstri um landið en mál, orð og bókmenntir koma
9 Þórarinn Eldjárn (2007:26).
10 Þórarinn Eldjárn (2007:27–28).
11 Þórarinn Eldjárn (2007:54–55).
12 Þórarinn Eldjárn (2007:21–22).