Són - 01.01.2008, Blaðsíða 155
LJÓÐ SEM BÍTA, ÖSKRA, STRJÚKA OG HVÍSLA 155
Skáldskapur Nýhilinga og Nykurmanna einkennist af heimsósóma
og bölsýni. Ungu skáldin eru ekki bjartsýn en til allrar lukku eru þau
full af eldmóði, staðráðin í að vinna íslenskri ljóðlist brautargengi.
Ingólfur Gíslason orðar þetta ágætlega fyrir hönd sinnar kynslóðar
þegar hann neitar að viðurkenna sigur þagnarinnar og vonar að við
berum ljóðæðið áfram til næsta manns og næsta og svo koll af kolli.93
Ef til vill átti sér meira stað í ljóðaútgáfu árið 2007 en oft áður.
Nokkrum sinnum heyrðist talað um óvenju vegleg ljóðajól, bæði hvað
varðar magn og gæði. Samt sem áður hafði fólk áhyggjur af stöðu
ljóðsins. Sumir meira að segja voðalegar áhyggjur og töluðu um yfir-
vofandi, eða jafnvel yfirstandandi, dauða ljóðsins.
Jákvæðari sálir héldu því fram að ljóðið lifði góðu lífi og engin
ástæða væri til að örvænta nema síður sé. Kennarinn og yfirlesarinn
Þórður Helgason, sem í mörg ár hefur komið að ljóðaútgáfu, segir að
heilmikið sé að gerast í heimi ljóðsins og unga fólki hafi svo sannar-
lega áhuga á ljóðlistinni.94 Skáldið Gerður Kristný er sammála Þórði
og tekur jafnvel dýpra í árinni, kveður ljóðið vera æðst allra bók-
menntagreina og finnst95
[…] allt þetta tal um dauða ljóðsins [lýsa] bara ótta okkar við að
missa það, rétt eins og þegar fréttir fara á kreik um andlát ást-
sælla tónlistarmanna eða veðurfræðinga. Á meðan þessi þjóð
þarf á því að halda að láta hugga sig, skemmta eða hrista upp í
sér verður ljóðið alltaf sterkur þáttur í lífi hennar.
Menningarskríbentinn Páll Ásgeir Ásgeirsson á Morgunblaðinu er á
sömu línu og í grein þar sem hann veltir fyrir sér stöðu ljóðsins segir
hann það vera í fínu formi, „það iðar og spriklar og ýlfrar og tístir“.96
Þetta er líka skoðun þeirrar sem hér ritar. Umræðan um meint
andarslitur ljóðsins og allt harmakveinið í kringum það er orðið ansi
þreytandi. Ljóðið hefur ekki lagt upp laupana – það hefur lifað ágætu
lífi á Íslandi lengur en elstu menn muna og gerir það örugglega um
ókomna tíð. Árið 2007 var gott ljóðaár. Við skulum njóta þess og lesa
frekar það sem skáldin ortu á árinu 2007 en syrgja það sem er svo
langt í frá dáið.
93 Eiríkur Örn Norðdahl (2007a:6).
94 Ásgeir H. Ingólfsson (2007b).
95 Einar Falur Ingólfsson (2007:55).
96 Páll Ásgeir Ágeirsson (2007). Þröstur Helgason (2007b) ræðir þetta líka í greininni
„Sálarlausir segja ljóðið dautt.“