Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Blaðsíða 121
119
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
,,Það sem áður var bannað er nú leikur“
Breytingar á uppeldissýn í leikskóla
Hrönn Pálmadóttir og Þórdís Þórðardóttir
Kennaraháskóla Íslands
Hér er greint frá rannsókn á þróun uppeldissýnar starfsfólks í einum leikskóla í Reykjavík.
Rannsóknin stóð yfir meðan unnið var að þróunarverkefninu ,,Má ég vera með“ á árunum
2002–2004. Í leikskólanum voru 130 börn, 25 leiðbeinendur og sjö leikskólakennarar. Markmiðið
var að varpa ljósi á samhengið milli uppeldissýnar og samskipta- og kennsluaðferða í leikskóla
þar sem leikskólakennarar eru 21% starfsfólks. Samskipti barna og starfsfólks voru tekin upp á
125 myndbönd og voru 30 vettvangsnótur af greiningarfundum skráðar í kjölfarið. Að auki voru
tekin 23 hópviðtöl við starfsfólkið, í upphafi, um miðbik og í lok verkefnis og spurningalisti lagður
fyrir allt starfsfólk í upphafi og við lok þess. Í ljós kom að kennarar og leiðbeinendur höfðu fremur
ólíka uppeldissýn í upphafi en minna bar á milli í lokin. Vegna mismunandi uppeldissýnar nýttist
þróunarverkefnið leikskólakennurum og leiðbeinendum hvorum á sinn mátann. Leiðbeinendur
þróuðu hugmyndir sínar um börn og leikskólastarf en leikskólakennarar nýttu aðferðir verkefnisins
til að þróa eigin fagmennsku og starf með börnum sem þurftu sérstakan stuðning. Meðan á
verkefninu stóð dró úr reglufestu og stjórn fullorðinna á verkefnum barna í leikskólanum. Í
lokin var lögð meiri áhersla á að staðfesta frumkvæði, virkni og athafnir barna sem og ábyrgð
fullorðinna á lýðræðislegum samskiptum í leikskólanum.
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007, 119–135
Hagnýtt gildi: Greinin hefur hagnýtt gildi fyrir þá sem koma að starfi og stefnumörkun í
leikskólum og skipuleggja menntun leikskólakennara. Niðurstöðurnar gefa nýjar upplýsingar
um ólíkar uppeldisaðferðir í leikskóla og hvernig þróunarverkefni hefur mismunandi gildi fyrir
kennara og leiðbeinendur. Fram kemur þörf fyrir aukna menntun starfsfólks í leikskólanum í
uppeldis- og kennsluaðferðum sem ýta undir lýðræðisleg samskipti í anda þeirra markmiða sem
sett eru fram í aðalnámskrá leikskóla (1999).
Tildrög rannsóknarinnar voru þau að rann-
sakendur tóku að sér að beiðni leikskóla-
stjóra að stýra þróunarverkefni til að efla
samskiptin í leikskólanum. Þróunarverkefnið
,,Má ég vera með“ stóð yfir í tvö ár. Það var
byggt á hugmyndum og aðferðum marte meo
um samskipti barna og fullorðinna þar sem
sjónum er beint að styrkleikum í samskiptunum
(Aarts, 2000). Samskipta- og kennsluaðferðir
eru nátengdar uppeldissýn fólks og töldu
rannsakendur áhugavert, þegar tækifærið
bauðst í gegnum verkefnisstjórnunina, að
skoða hvernig uppeldissýn starfsfólksins birtist
og hvernig samskipta- og kennsluaðferðir þess
þróuðust fyrir tilstilli þeirrar íhlutunar sem
fólst í þróunarverkefninu.
Hugtakið uppeldissýn hefur þróast í tímans
rás. Hansen (2000) rekur hugtakið til Fröbels
og telur fröbelska uppeldissýn einkennast af
því að uppalandur og kennarar líta á barnið
líkt og jurt sem hlúa þarf að svo allir kostir
hennar geti blómstrað. Dahlberg, Moss og
Pence (1999) flokka sýn fagfólks á menntun
ungra barna í fimm flokka. Flokkarnir eru: 1.
Börn endurframleiða (e. reproduce) ríkjandi
menningu en sú sýn einkenndi atferlisstefnuna
og Dahlberg og fél. rekja þetta til hugmynda
Locke um að börn séu óskrifað blað. 2.