Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Blaðsíða 103
Þáttabygging og áreiðanleiki íslenskrar
þýðingar á kennaralista Conners
Einar Guðmundsson og Emilía Guðmundsdóttir
Háskóla Íslands
Kennaralisti Conners (Conners’ Teacher Rating Scale-Revised) var þýddur úr ensku á íslensku
og lagður fyrir í handahófsúrtaki 182 kennara barna á aldrinum 6 til 9 ára. Löng útgáfa listans
samanstendur af 59 staðhæfingum. Í langri útgáfu kennaralistans í Bandaríkjunum eru sex af
13 kvörðum raunvísir. Þeir voru myndaðir með þáttagreiningu og innihalda 38 staðhæfingar. Í
íslenska úrtakinu komu fram fimm þættir þegar meginásaþáttagreining (principal axes factor
analysis) var gerð með promax-snúningi á 38 staðhæfingum í langri útgáfu kennaralistans.
Þættirnir fimm skýra 57,8% af heildardreifingu staðhæfinganna. Inntak fjögurra þátta (Hugrænn
vandi/Athyglisbrestur, Félagslegur vandi, Kvíði-feimni, Fullkomnunarárátta) er eins í íslenska
úrtakinu og í Bandaríkjunum en tveir þættir í Bandaríkjunum (Mótþrói og Ofvirkni) mynda til
samans einn þátt á Íslandi. Fylgni milli þátta var almennt lítil. Sex af sjö klínískum kvörðum í
langri útgáfu kennaralista Conners í Bandaríkjunum eru að mestu eins á Íslandi. Þessir sex kvarðar
eru: Heildartala Conners: Samantekt og tveir undirkvarðar (Heildartala Conners: Tilfinningalegur
óstöðugleiki; Heildartala Conners: Eirðarleysi-hvatvísi) og DSM-IV: Samantekt og tveir
undirkvarðar (DSM-IV: Athyglisbrestur; DSM-IV: Ofvirkni-hvatvísi). Heildartala athyglisbrests
með ofvirkni (AMO) myndar hins vegar tvo þætti á Íslandi. Í stuttri útgáfu kennaralista Conners
komu fram tveir þættir, Mótþrói-ofvirkni og Hugrænn vandi/Athyglisbrestur. Alfastuðlar kvarða í
stuttri útgáfu kennaralista Conners fyrir drengi og stúlkur eru 0,85 eða hærri. Alfastuðlar kvarða
í langri útgáfu kennaralista Conners fyrir drengi og stúlkur eru í fjórum tilvikum af 24 lægri en
0,80, í sex tilvikum á bilinu 0,80 til 0,89 og í 14 tilvikum af 24 0,90 eða hærri. Löng og stutt útgáfa
á kennaralista Conners er ekki nothæf í núverandi mynd. Athuga þarf eiginleika listans nánar í
stærra úrtaki og staðla áður en það er gert. Aftur á móti benda niðurstöðurnar til þess að frekari
rannsóknarvinna geti skilað nothæfum atferlislista við skimun og greiningu geðrænna vandkvæða
hjá börnum og unglingum.
Atferlislistar eru gjarnan notaðir til að afla
upplýsinga um hegðun, líðan og samskipti
barna og unglinga í skimun, greiningu og
meðferð á geðrænum vanda eða hegðunarvanda.
Algengast er að foreldrar og kennarar svari
spurningum um hegðun, líðan og samskipti
barna og unglinga þegar matið fer fram.
Notagildi atferlislista byggist einmitt á því að
meta hegðun á líðandi stund en ekki löngu liðna
atburði. Jafnframt beinist matið að sýnilegri
hegðun fremur en skapgerðarþáttum.
Atferlislistar eru gagnlegir til að bera saman
mat þeirra sem umgangast barn (t.d. móður,
föður og kennara) í mismunandi aðstæðum
(t.d. heima og í skóla) og sjálfsmat barns
eða unglings. Með þessu móti er hægt að
skoða samkvæmni í hegðun og samskiptum
barns eða unglings sem gagnast í greiningu
hegðunarvandkvæða. Að auki gagnast mat
ólíkra matsaðila á vanda barns, í sömu eða
ólíkum aðstæðum, við ákvarðanir um íhlutun
af einhverju tagi og mat á því sem gert er til
hjálpar barni eða unglingi.
Þrátt fyrir misræmi í mati mismunandi
101Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007, bls. 101–118
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
Hagnýtt gildi: Kennarar eru oft beðnir um að svara atferlislistum um hegðun og líðan nemenda
sinna. Hagnýtt gildi rannsóknarinnar fyrir kennara og aðra sérfræðinga felst í kynningu á notagildi
og fræðilegu samhengi þessara lista.