Tímarit um menntarannsóknir - 01.01.2007, Blaðsíða 131
129
Tímarit um menntarannsóknir, 4. árgangur 2007
Breytingar á uppeldissýn í leikskóla
deildinni. Hann situr á stól og hvetur börnin
með jákvæðum rómi til sjálfshjálpar. Hann
tekur undir það sem þau beina áhuga sínum
að um leið og hann heldur þeim við efnið með
því að orða athafnir þeirra. Önnur upptakan
átti sér stað þegar Jónas spilaði teningaspil
með þremur ungum börnum. Þetta var í fyrsta
skipti sem börnin spiluðu þetta spil. Jónas
studdi og leiðbeindi börnunum með jákvæðni
í röddinni. Hann kenndi þeim leikreglurnar
með því að orða athafnirnar, t.d. „að gera til
skiptis“ og að „rétta teninginn“. Hann nefnir
nöfn barnanna og biður þau um að „rétta
hvert öðru“. Þriðja upptakan fór fram á elstu
deildinni og voru tveir drengir að leika saman.
Annar þeirra þurfti á stuðningi í félagslegum
samskiptum að halda. Leikið var á gólfi og
leikefnið var kastali með tilheyrandi búnaði,
svo sem riddurum og hestum. Jónas fylgist vel
með framgangi leiksins og þeim leikþemum
sem upp komu í leik drengjanna. Hann kemur
inn í leikinn og leitast við að skapa tengsl milli
drengjanna gegnum hugmyndir þeirra að leik
og þróar enn frekar og færir í víðara samhengi.
Hann túlkar og orðar athafnir drengjanna og
notar sjálfur leikmál eins og „minn gerir“ og
„minn er að fara“.
Greina má breytingar og þróun í upptökum
hjá Jónasi leikskólakennara á þann veg að
hann nýtti þær æ meira fyrir börn á deildinni
sem þurftu á sérstökum stuðningi að halda í
samskiptum og leik. Í því skyni skipulagði
Jónas leikstundir og valdi barn sem hann taldi
heppilegan leikfélaga. Hann sat hjá börnunum
meðan þau léku sér. Hann studdi og staðfesti
t.d. athafnir barnanna í leiknum með því að færa
þær í orð. Hann beindi sjónum að þeim þemum
sem upp komu í leiknum hjá börnunum. Jónas
notaði leikmál og túlkaði milli barnanna til
þess að skapa tengsl milli þeirra.
Leikur og samskipti barna í öndvegi
Undir lok verkefnisins ræddu leikskóla-
kennararnir um mikilvægi þróunarverkefnisins
fyrir fjölbreytni í kennsluaðferðum, hvernig
það hefði styrkt þá faglega og auðveldað
þeim að skipuleggja námsaðstæður barnanna.
Um það segir Jónas: Þegar maður er orðinn
meðvitaður um samskiptin, eins og gerist í
þessu verkefni, þá skipuleggur maður hlutina
öðruvísi. Ég raða efniviðnum öðruvísi og
skipulegg starfið með börnunum betur í
kringum efniviðinn. Jóna tekur undir þetta og
segist nota einingakubbana mikið með yngstu
börnunum. Áður en verkefnið hófst hafi hún
ekki gert sér grein fyrir hæfni barnanna í
byggingarleik. Ester segir:
Við erum núna beinlínis að takast á við
samskiptamynstrið á deildinni. Ég skipulegg
útival og skapa aðstæður til smíða, til að mála
með vatni, til að kríta, blása sápukúlur og
til leikja. Það er auðveldara að skipuleggja
þetta í útileikjum en innanhúss. Ég skipulegg
þetta með það í huga að þau fái útrás fyrir
tilfinningar. Eftir það er auðveldara að styrkja
samskiptin þegar við komum inn aftur.
Í gögnunum kemur jafnframt fram að sýn
leiðbeinenda á leik og samskipti breyttist
nokkuð meðan á þróunarverkefninu stóð.
Frásögn Gróu er skýrt dæmi þar um: Nú reynir
maður að skipuleggja hlutina fyrir krakkana
út frá verkefninu. Það þarf að skipuleggja það
í gegnum leikinn. Unnur tók í sama streng og
sagði: Mér fannst skrýtið að skipuleggja út
frá samskiptum, en það er náttúrulega þannig
í gegnum leikinn. Framangreind dæmi eru
lýsandi fyrir þær breytingar sem greina mátti í
hugmyndum leiðbeinenda um tilgang þess að
skipuleggja námsumhverfi fyrir börnin. Í lok
verkefnisins leggja þeir áherslu á leikinn, eða
eins og Olga sagði: Það þarf að láta leik barna
njóta sín. Leiðbeinendur hafa að mestu horfið
frá þeim hugmyndum að börn séu getulítil.
Áherslan beinist nú að því að nota sterku hliðar
barnanna til að efla samskipti þeirra innbyrðis.
Leikurinn skipar hærri sess og nýtist til að
styrkja frumkvæði barna, leiðbeina þeim í átt
að sjálfstæði og taka þátt í athöfnum þeirra.
Rætt er um hlutverk og ákvarðanir starfsfólks
í námi barna, samskipti við börn og innan
barnahópanna. Dinsen og Rasmussen (2000)
í Horsens í Danmörku og Drugli (1994) í
Þrándheimi fengu svipaðar niðurstöður um
þróun í starfi.