Gripla - 01.01.2003, Page 140
138
GRIPLA
Hér er til athugunar síðasta orð annars vísuorðs. Talið er að skrifari Codex
Regius hafi ritað fyrst „storan“ í ógáti, síðan hafi hann breytt a í o og n í m.
Seinna hafi síðasti leggur w-sins verið skafinn brott, af sama manni og hér
hefur verið fjallað um (Wimmer, Finnur Jónsson 1891:186, 195). Það sem hér
skiptir máli er að merkingarlega kemur hvort tveggja jafnt til greina, atviks-
orðið stórum og lýsingarorðsmyndin stóran. I útgáfum er jafnan höfð myndin
stóran, að hætti þess sem skóf, en ekki er tekið tillit til ásetnings skrifarans
sjálfs.
(19) Enn Hlórriði,
er at hpndom kom,
brát lét bresta
brattstein (gleri);
sló hann sitiandi
súlor í gognom;
báro þó heilan
fyr Hymi síðan.
(Hymiskviða 29)
Á undan orðinu gleri hafði skrifari Codex Regius ritað „itva/“ en sett punkta
undir til merkis um að það væri rangt, og svo ritaði hann þar fyrir aftan
„glen“.10 Hugsanlega fannst þeim sem skóf brott orðið gleri að í tvau ‘í
10 Þetta er sérkennileg leiðrétting hjá skrifara Codex Regius, orðin gleri og í tvau eru ólík. Því
er ekki sennilegt að um mislestur hafi verið að ræða þegar hann ritaði fyrst í tvau.
Hugsanlega stóð í tvau í forriti Codex Regius en skrifarinn hefur kosið að breyta því. Giska
má á ástæðuna. í Martinus sögu biskups segir frá glerkeri sem fellur á steina en brotnar eigi
og stuttu síðar segir frá stöplum sem erfitt er að brjóta (Heilagra manna s(>gur I 1877:570,
571). Þetta minnir á efni 29. vísu Hymiskviðu. Ef til vill þekkti skrifari Codex Regius Mar-
tinus sögu og skrifaði þess vegna gleri í stað í tvau eins og kannski stóð í forriti hans.
Frásagnir Martinus sögu af glerkeri og stöplum eru á sömu opnu í handritinu AM 645 4to (A
Book of Miracles 1935:64v, 65r). Sá hluti handritsins er talinn frá 1225-1250 (Ordbog over
det norr0ne prosasprog. Registre 1989:333). Það er hugsanlegt að AM 645 4to hafi verið
fyrirmynd skrifara Codex Regius. En Martinus saga hefur verið víða til, og öll handrit hennar
hafa átt það sammerkt að skammt hefur þar verið milli glerkers og stöpla. Fyrirmyndir gætu
svo vissulega verið aðrar, sjá. t.d. Díalóga Gregoríusar II, Benedictus sögu, en þar er talað um
glerker sem springur í sundur og stein (Heilagra manna spgur I 1877:203). Líkindin eru samt
ekki eins og mikil og við Martinus sögu. — Önnur skýring á leiðréttingu skrifara Codex
Regius er hugsanleg. Hann hefur e.t.v. ritað í tvau af misgáningi af því að þessi orð stóðu
aðeins framar í handritinu, í Hymiskviðu 12. Honum hafa kannski verið þau minnisstæð eða
þá að hann leit á rangan stað í forriti sínu. Hann hefur svo áttað sig í tíma og leiðrétt textann.
Ef þessi skýring á við rök að styðjast hefur orðmyndin gleri staðið í Hymiskviðu 29 í forriti
Codex Regius.