Gripla - 01.01.2003, Blaðsíða 216
214
GRIPLA
málfar; slíkt megi allt eins fjalla um í lesbrigðaskrá eða inngangi (1994:302,
10. nmgr.).20
Umfjöllun um stafsetningu, hljóðkerfi og beygingar í inngangi útgáfu
gagnast auðvitað málfræðingum, sérstaklega þegar verið er að fjalla um ein-
stakar málbreytingar, t.d. samfall /y, ý, ey/ og /i, í, ei/. Það eru hins vegar
takmörk fyrir því hvað hægt er að ætlast til af útgefendum að þeir tíni til af
málfarsatriðum í inngangi — sérstaklega ef þeir eru ekki málfræðingar — og
þess vegna ætti útgáfa að vera þannig úr garði gerð að málfræðingar geti notað
hana við rannsóknir á öðrum atriðum en þeim helstu sem útgefendum hug-
kvæmist að nefna í inngangi.
Halldór Hermannsson (1933:43—44) segir að þegar farið var að gefa út
„diplomatic“ útgáfur hafí málfræðingar fagnað þeim og allir textar verið gefn-
ir út á þann hátt ef mögulegt var. Slíkar „reproductions“ geti verið til gagns, en
ókosturinn við þær sé að þær séu algjörlega ólæsilegar. Og þar sem mál-
fræðingar lesi þær ekki (sbr. Finnur Jónsson 1931:14-15) sé grundvöllurinn
brostinn undan þeim og ef þörf sé á að gefa út texta eins og hann er í hand-
ritinu eigi að ljósprenta handritið.
Jón Helgason var ekki sama sinnis og þegar hann gaf út úrval úr bréfa-
bókum Brynjólfs Sveinssonar biskups hafði hann þessi orð um stafsetninguna
í útgáfunni (1942:xiv):
Bréfin eru í þessari bók prentuð stafrétt. Málfar og stafsetning sérhvers
tímabils er hvort öðru nátengt, og texti frá 17. öld í ytra gervi 20. aldar
er að sínu leyti sams konar og málverk af Hallgrími Péturssyni í jakka-
fötum með linan flibba.
20 Sem dæmi um greinargóða lýsingu á skrift og stafsetningu í inngangi má nefna útgáfu Hu-
berts Seelows (1981) á Hálfs sögu og Hálfsrekka, en hann skiptir umfjöllun um skrift, staf-
setningu og hljóðkerfi niður á skipulegan hátt (1981:84-104). Hins vegar er oft blandað sam-
an stafagerðar-, táknbeitingar- og stafsetningarlýsingum í útgáfum, svo að vandasamt getur
verið að henda reiður á því hvort útgefandinn er að tala um stafagerð (útlit einstakra tákna),
táknbeitingu (val á tákni, þ.e. bandi eða staf, í stað einhvers annars) eða stafsetningu (hljóð-
kerfislýsingu); umfjöllun um beygingu, orðmyndir og setningaskipun er jafnvel saman við.
Um skriftarlýsingar segir Ömólfur Thorsson (1990:33): „Raunar hef ég aldrei skilið hvers
vegna þessi ítarlega staffræði fylgir textaútgáfum þar sem textinn er einatt samræmdur að
einhverju marki; í því samhengi minnir hún dálítið á lýsingar á málverkum í útvarpi." Að
sjálfsögðu eiga skriftarlýsingar betur heima í Ijósprentuðum útgáfum en öðmm útgáfum, eins
og Ömólfur bendir á, en samt sem áður er varla ástæða til að amast við þeim í öðmm útgáf-
um þar sem þær koma skriftarfræðingum að notum.