Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Qupperneq 68
68
á hugmyndafræði Elias, þá er það engu að síður svo að hugmyndir hans
um hinn frumstæða miðaldamann höfðu gífurleg áhrif og mótuðu viðhorf
fræðimanna sem og leikmanna til miðalda og má segja sem svo að enn eimi
eftir af hugmyndunum um hinar frumstæðu miðaldir.
Siðmenning var þannig beintengd við tilfinningalíf og þá ekki síst við þá
athöfn að beisla eða bæla niður taumlausar tilfinningar. Nútímarannsóknir
í taugalíffræði og lífefnafræði hafa hins vegar leitt í ljóst að slíkar hug-
myndir um tilfinningar sem hvatir sem huganum beri að stjórna eru sjálfar
söguleg hugmyndasmíð sem á sér ekki stoð í því flókna taugalíffræðilega
kerfi sem liggur að baki tilfinningalífi manna.3 Ef horft er til miðalda-
bókmennta með hliðsjón af slíkum hugmyndum, má gefa sér að þær til-
finningar sem þar birtast endurspegli að einhverju leyti tilfinningalíf mið-
aldamanna, en að þær séu engu að síður mótaðar af hugmyndum um eðli
tilfinninga, venjum um framsetningu þeirra og menningarhlutverki þeirra
í hverju samfélagi fyrir sig. Lesandi sem dregur fram Niflungakviðuna
(Nibelungenlied), sem vitnað er í hér í upphafi greinar, nú 800 árum síðar, á
ekki í neinum vandkvæðum með að túlka þær tilfinningar sem þar er lýst,
jafnvel þó að sá menningarheimur sem kviðan vísar í sé honum víðs fjarri.
Sá skilningur felst kannski einna helst í þeim eiginleika mannsins að túlka
viðbrögð, orð og gjörðir í eigið hugmyndafræðilegt kerfi. Tilfinningar
eru endurskapaðar í huga lesanda út frá hans eigin skilningi og skynjun
á svipbrigðum, líkamstjáningu og yrðingum. Spurningin sem eftir stend-
ur er hins vegar hvernig slíkum tilfinningum er miðlað? Hvernig getum
við fjallað um tilfinningar í bókmenntum þegar tilfinningar eru taugalíf-
fræðilegt fyrirbrigði sem tilheyrir mannslíkamanum en ekki, þegar upp
er staðið, þeirri textalegu hugsmíð sem sögupersónur eru. Í þessari grein
verður kannað hvernig tilfinningum í texta, þá sérstaklega miðaldatextum,
er miðlað til nútímalesandans. Leitast verður við að greina hlutverk þeirra
og framsetningu og gildi slíkrar nálgunar fyrir miðaldabókmenntir skoðað.
3 Rannsóknir innan taugalíffræði hafa á síðustu árum sýnt fram á að tilfinningar eru
hluti af flóknu ferli sem felur meðal annars í sér skynjun og hugræna úrvinnslu
eða mat á aðstæðum. Sá fræðimaður sem hefur einna helst átt þátt í að afbyggja
hugmyndir um aðskilnað líkama og hugar, þegar tilfinningaupplifun á í hlut, er
heila- og taugafræðingurinn Antonio damasio. Bók hans, Descartes’ Error. Emotion,
Reason and the Human Brain (London: Vintage Books, 2006), byggir meðal annars
á þeirri grundvallarkenningu að tilfinningar séu nauðsynlegur þáttur í því hugræna
ferli sem liggi til grundvallar rökhugsun. Tilfinningar séu því ekki hvatir sem þurfi
að bæla eða hemja til að rökleiðsla geti átt sér stað, heldur séu þær þvert á móti
forsenda rökhugsunar og ákvarðanatöku.
Sif RíKhaRðSdóttiR