Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Page 70
70
lífvera í rannsóknum sínum á svipbrigðum manna og dýra. Í kjölfarið á
flokkun hans á mannlegum tilfinningum, sem sett var fram í verki hans,
Svipbrigði tilfinninganna í mönnum og dýrum8 á síðari hluta nítjándu aldar
beindust sálfræðirannsóknir á tilfinningum aðallega að þróunarsálfræði (e.
evolutionary psychology). Litið var svo á að tilfinningar væru lífefnafræðileg
viðbrögð við áreiti sem miðlað væri í gegnum taugakerfið. Þessi viðbrögð
væru erfðafræðileg og því háð þróun mannsins sem lífveru. Ef tilfinningar
voru innbyggðar í erfðamengi mannsins, var hægt að líta svo á að þær væru
líffræðilega staðlaðar og því hægt að greina þær og flokka.
Fræðimenn eins og Paul Ekman og Wallace V. Friesen hófu á sjöunda
áratug tuttugustu aldar að rannsaka svipbrigði fólks í ólíkum menningar-
heimum og settu í framhaldi af því fram kenningar um að hægt væri að
greina ákveðnar grunntilfinningar eins og reiði, hamingju (eða vellíðan),
sorg og ótta á svipbrigðum fólks, óháð þjóðerni þess eða menningu.9 Slík
eðlislæg og ómeðvituð tilfinningaleg viðbrögð bentu til þess að um væri
að ræða stöðluð og algild líffræðileg viðbrögð sem hægt væri að greina
út frá ákveðnum algildum taugalíffræðilegum svipbrigðum. Upp úr 1980
kom fram hópur sálfræðinga sem gagnrýndi slíkar þróunarkenningar og
taldi að tilfinningar væru menningarbundnar og þar af leiðandi breyti-
legar. Carolyne Larrington hefur skilgreint þessar kenningar sem „frum-
þáttakenningar“ (e. componential theories) í andstöðu við það sem hún kallar
„algildiskenningar“ (e. universalist theories).10 Hún skiptir frumþáttakenn-
ingum í þrjá hópa þar sem áherslan er annað hvort á sálfræðilegan, hug-
rænan eða hegðunarlegan þátt tilfinninga. Þessar kenningar falla meira og
minna undir þann skóla sem kenndur hefur verið við félagslega hugsmíða-
hyggju (e. social constructionist school) sem felur í sér vítt svið kenninga sem
8 Charles darwin, The Expression of the Emotions in Man and Animals, 3. útg., London:
HarperCollinsPublishers, 1998.
9 Sem dæmi um rannsóknir á grunntilfinningum og svipbrigðum má benda á
Paul Ekman og Wallace V. Friesen, „Constants Across Cultures in the Face and
Emotion“, Journal of Personality and Social Psychology 17/1971, bls. 124–129, og
Ekman og Friesen, „Universals and Cultural differences in the Judgments of Facial
Expressions of Emotion“, Journal of Personality and Social Psychology 53/1987, bls.
712–717. James A. Russell hefur gagnrýnt nálgunaraðferð þeirra í grein sinni „Is
there Universal Recognition of Emotion from Facial Expression? A Review of
Cross-Cultural Studies“, Psychological Bulletin 115/1994, bls. 102–141.
10 Carolyne Larrington, „The Psychology of Emotion and Study of the Medieval
Period“, Early Medieval Europe 10/2001, bls. 251–256, sjá sérstaklega bls. 251.
Sif RíKhaRðSdóttiR