Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Qupperneq 75
75
legra boðskipta og menningarlegrar mótunar, má sjá hvar taugavísindin
skarast beinlínis við hug- og félagsvísindin. Ef slík erfðafræðileg taugakerfi
eru í raun sjálf mótuð og undir áhrifum af reynslu einstaklings sem félags-
veru, getur aðgreining hins lífefnafræðilega þáttar frá hinum félagslega
leitt af sér skakka mynd af því ferli sem á sér stað í upplifun og miðl-
un mannlegra tilfinninga. Hin taugafræðilegu og lífefnafræðilegu boð-
skipti sem einstaklingar túlka sem tilfinningar eru því mótuð af umhverfi,
þörfum og aðstæðum einstaklinga. Skilningur á tilfinningum grundvallast
þar af leiðandi í meðvitund um menningarlegt samhengi.
Í þessari grein er gengið út frá því að tilfinningar eigi sér taugafræði-
legan uppruna en að framsetning tilfinninga og þær sérstöku aðstæður sem
leiða af sér tilfinningar séu hins vegar að miklu leyti menningarbundnar og
ákvarðist af reynslu, persónuleika og samfélagslegu umhverfi einstaklings.
Forsendur fyrir skilningi á tilfinningalífi annarrar persónu séu hins vegar
þær að miðlun tilfinninga feli í sér einhvers konar kjarna sem sé sammann-
legur, annars værum við ófær um að túlka og sýna samhygð yfir landamæri
eða jafnvel milli kynslóða. Slík miðlun er að mati sálfræðingsins Keiths
Oatley í sjálfu sér grundvallarhlutverk tilfinninga.24 Megintilgangur til-
finninga sé að stjórna því hvert athygli lífveru beinist, í því skyni að gera
hana reiðubúna til að bregðast við aðstæðum, hvort heldur neikvæðum eða
jákvæðum, í þeim tilgangi að tryggja á sem bestan hátt afkomu hennar.
Oatley telur því að tilfinningar gegni meginhlutverki í upplýsingaflæði,
en að sú miðlun beinist inn á við, að einstaklingnum sjálfum. Barbara
Rosenwein heldur því hins vegar fram að slík miðlun eigi sér ekki einungis
stað innra með lífveru heldur gegni tilfinningar öðru fremur því hlutverki
að greiða fyrir mannlegum samskiptum: „Tilfinningar eru hluti af mann-
legum samskiptum ... og eru tjáðar í frásögnum sem eru mótaðar af félags-
legu samhengi, bæði þær sem eru ímyndaðar og þær sem þróast innan
hins raunverulega heims“.25 Rosenwein lítur því svo á að tilfinningar séu
„félagslegar afurðir“ (social products) og þær beri að skilgreina og túlka sem
slíkar.26 Tilfinningar mætti því skilgreina sem tjáningarform sem miðlar
24 Keith Oatley, „Emotions: Communications to the Self and Others“, The Emotions:
Social, Cultural and Biological Dimensions, bls. 312–316.
25 Barbara H. Rosenwein, „Writing without Fear about Early Medieval Emotions“,
Early Medieval Europe 10/2001, bls. 229–234, sjá bls. 231. Á ensku segir: „Emotions
are part of human communication ... [and] are expressed within socially constructed
narratives, both imaginary and unfolding in the real world.“
26 Sama heimild, bls. 231.
HUGRÆN FRÆðI, TILFINNINGAR OG MIðALdIR