Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Page 88
88
lega upphaflega verið tengt líkamsvessum fremur en lífefnafræðilegum
boðskiptum.
Slík meðvituð notkun birtingarmynda tilfinninga í textanum til að
skapa togstreitu eða beina athyglinni að undirliggjandi togstreitu undir-
strikar stöðu tilfinninga í bókmenntum sem táknmynda og leggur áherslu
á hlutverk lesandans við að ráða í slík tákn. Líta má á miðaldatextann sem
menningarlega afurð og miðlun tilfinninga í slíkum textum er því háð
meðvitund um þær hömlur sem tíminn sem skilur að nútímalesandann og
miðaldahöfundinn setur okkur. Engu að síður veita slíkir textar okkur ekki
bara þýðingarmiklar upplýsingar um þann tilfinningaheim sem miðlað var
í gegnum texta, heldur einnig um okkur sjálf sem viðtakendur og túlkend-
ur slíkra tilfinninga. Það tilfinningalíf sem sögupersónur eiga að búa yfir
verður einungis til í huga lesandans og má því segja sem svo að hann eigi
sér stað í nútímanum og innan okkar eigin menningarbundna samhengis.
Það er því verðugt viðfangsefni að skoða ekki bara hvernig tilfinningar eru
framsettar og túlkaðar innan miðaldasamhengis, heldur einnig hvernig sú
túlkun getur haft merkingu í dag.53 Nútímakenningar innan taugalíffræði
geta því veitt aðferðafræðilegan grunn til að kanna samspil tilfinninga sem
textatákna og þess sem á sér stað í huga lesandans við túlkun og úrvinnslu
slíkra tákna. Slíkri nálgun má líkja við brú milli menningarheims miðalda
og nútímalesandans, sem gerir það að verkum að þær tilfinningar sem búa
í textanum sem táknróf eru túlkaðar og skynjaðar af nútímalesandanum
þrátt fyrir þann aðskilnað sem er á milli þessara menningar- og mála-
heima.54
53 Guðrún Nordal bendir meðal annars á að samanburður við fortíðina geti varpað
ljósi á nútímann (Guðrún Nordal, „Endurtekin stef um óhóf, ofsa og ágirnd“,
Skírnir vor/2009, bls. 76–86). Hún dregur líkingar milli þess þjóðfélagsóróa sem
varð í kjölfar hruns á Íslandi og þeirra atburða Sturlungaaldar þegar þjóðin skipaði
sér í fylkingar og ósætti og deilur mörkuðu samfélagið. Sturlungaöldin sameinaði
djúpstæð pólitísk átök og gífurlega sköpunargleði sem afhjúpar tilfinningalegt
umbrot höfunda og áheyrenda þess tíma og tilraunir til að takast á við sögulegan
raunveruleika. Slík gildi eiga engu síður við í dag en þá og veita okkur innsýn inn
í þann menningarheim sem má segja að liggi til grundvallar okkar eigin menn-
ingu.
54 Grein þessi byggir að hluta til á fyrirlestrinum „Nútímakenningar og miðaldabók-
menntir: taugafræði, menning, texti“ sem haldinn var í málstofunni „Hvað eru
miðaldafræði?“ á Hugvísindaþingi 9.–10. mars 2012.
Sif RíKhaRðSdóttiR