Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Side 135
135
en það breytir ekki því að slík hugartæki til skilnings á tilteknum þáttum
umheimsins eru ráðandi í hugfræði samtímans.21 Kant gerði ekki ráð fyrir
að beiting hugartækja,22 svo sem tíma og rúms, færi á nokkurn hátt fram
með meðvituðum hætti og er sú skoðun sambærileg við samtímakenningar
um hugarstarf og skynjun, þar sem gert er ráð fyrir því að verkan þessara
hugartækja sé óaðgengileg skynseminni (e. cognitively impenetrable).23
Þekkingarfræði Kants í heimspekisögulegu ljósi
Kant setti byltingarkenndar hugmyndir sínar ekki fram í tómarúmi. Líklega
var hann þó fyrstur til að gera grein fyrir hugmyndum af þessu tagi í heild-
stæðu kenningakerfi. descartes velti til dæmis fyrir sér skilunum á milli
hlutverka hugar og skynfæra við öflun þekkingar en lausnir hans á þessum
þekkingarfræðilegu vandkvæðum voru ekki fullnægjandi. Rekja má hug-
hyggju í anda Kants allt aftur til forngrísku heimspekinganna. Það er vel
þekkt að Platón taldi að við ættum einungis kost á óbeinum tengslum
við raunveruleikann,24 og því svipar til kenninga Kants. Fræg hellislíking
Platóns er til vitnis um það. Kant var hins vegar ósammála Platóni um
afleiðingar þessa – hvað það þýðir að fangarnir í hellinum sjái einungis
skuggamyndir atburða utan hans. Kant hefði ekki tekið undir það að mynd
okkar af heiminum sé tálsýn. Skoðun hans var sú að við gætum aldrei öðl-
ast þekkingu á heiminum nema út frá okkar eigin sjónarhorni. Einnig er
rétt að nefna að Aristóteles fjallaði um það sem hann nefndi sameiginlegt
skynfæri sem hefði það hlutverk að samþætta upplýsingar frá mismunandi
skynfærum; erfitt er að túlka það öðruvísi en sem skilninginn sem túlkar
áreiti.25
Á eftir fornöld komu hinar myrku miðaldir í Evrópu en í kalífadæmum
Austurlanda nær varðveittist þekking Forngrikkja, þar sem bætt var við
hana. Þannig var framlag Alhazen (arab. Ibn Al-Haytham) til þekking-
21 Meðal annars má nefna Steven Pinker, How the Mind Works, New York: W.W.
Norton & Company, 1997; Jerry Fodor, The Modularity of Mind; donald Hoff-
mann, Visual Intelligence: How we create what we see, New York: W.W. Norton, 1998;
Árni Kristjánsson, „Rapid learning in attention shifts – A review“, Visual Cognition
13/2006, bls. 324–362.
22 Hér gerir höfundur ekki skýran greinarmun á hugartækjum og hugkvíunum sem
Kant fjallaði um í Gagnrýni hreinnar skynsemi.
23 Sjá t.d. Fodor, Modularity of mind; Árni Kristjánsson, Innra augað.
24 Sjá t.d. Platón, Ríkið, fyrra bindi, 157–160.
25 Sjá Aristóteles, Um Sálina, þýð. Sigurjón Björnsson, Reykjavík: Hið íslenska
bókmenntafélag, 1985.
ÞEKKINGARFRÆðI KANTS