Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2012, Qupperneq 172
172
ljóð og sögur sagðar, með frásagnarformgerð til að gera mannkyninu kleift
að takast á við það sem liggur því þyngst á hjarta. Slíkir sjónleikir og sögur
eru settar saman úr einingum sem við skiljum að heita má hverja fyrir sig.
Hermilíkönin gefa okkur færi á að öðlast allt að því heildstæðan skilning
með því að taka sjálf þátt í þessum stóru félagsformgerðum.
Metafóran er einn helsti vöðvi hugsunarinnar. Eins og Lakoff og Johnson
hafa haldið fram, og Crisp gerir að umræðuefni, virkar metafóran þannig að
hún tekur eitthvað í líkingu við beina reynslu, eins og að ferðast um í heim-
inum, og nýtir það sem æki (e. vehicle) eða upptök fyrir inntak (e. topic) eða
mark (e. target) sem við skiljum ekki eins vel.23 Þannig er hægt að varpa
reynslu af ferðalagi frá einum bæ til annars á það sem við skiljum lítt, nánar
tiltekið, til hvers við lifum: „Lífið er ferðalag á ónuminn áfangastað.“
Til að skilja eðli metafórunnar verðum við að búa yfir reynslu sem
varpa má á óljósari efni. Hjá þeim sem hafa tímunum saman forritað tölvur
og hugsað um víxlverkun þátta í flóknum ferlum vekur orðið hermun stórt
ský af merkingu og metafóran um skáldskap sem hermun gæti því fallið
þeim í geð. Í augum annarra kann hermun aðeins að eiga við eitthvað það
sem gerist í tölvum eða það sem er viðfangsefni annarra. Í slíkum tilfellum
er metafóran um hermun gagnslítil. Ef sú er raunin, mæli ég með því að
þið reiðið ykkur á metafóruna um drauminn, sem Coleridge, Keats og
Stevenson hafa ekki einir stungið upp á, heldur sjálfur Shakespeare:
Leikararnir
voru, svo sem ég gat um, allir andar
og hurfu í loftið líkt og rokinn eimur.
Og einsog þessi glapsýn, gerð úr engu,
mun gnæfur turn við ský og hnarreist höll,
musteri vígt, vor mikli hnöttur sjálfur,
já, öll hans dýrð hjaðna sem svipult hjóm
og eftir láta hvorki ögn né eyðu
fremur en sýning sú. Vér erum þelið
sem draumar spinnast úr...24
23 Sjá George Lakoff og Mark Johnson, Metaphors We Live By, Chicago: Chicago
University Press, 1980; Peter Crisp, „Conceptual metaphor and its expressions“,
Cognitive Poetics in Practice, bls. 99–115.
24 William Shakespeare, „Ofviðrið“ Leikrit II, þýðandi Helgi Hálfdanarson, Reykja-
vík: Heimskringla, 1957, bls. 160.
KEith oatlEy