Skírnir - 01.04.1995, Page 13
RITGERÐIR
DICK RINGLER
Styð eg mig að steini
Uppruni, þróun og merking Ijóðs eftir Jónas Hallgrímsson
LJÓÐIÐ SEM ÉG fjalla um í þessari ritgerð er til í tveimur myndum:
nafnlausri gerð með hendi Jónasar sjálfs, sem hefst á vísuorðinu
„Man eg þig Mei!“ og er að finna í handriti frá 1828-32, og gerð
sem nefnist „Söknuður" og er prentuð í sjötta árgangi Fjölnis
1843.1 Hingað til hefur „Man eg þig Mei!“ yfirleitt verið túlkað
sem sjálfsævisögulegt kvæði er endurspegli viðbrögð Jónasar við
vonbrigðum í ástum, þó að menn hafi ekki verið á eitt sáttir um
hvaða kona olli þeim vonbrigðum (Páll Bjarnason, 53-81). Ég
hyggst leiða að því rök að kvæðið sé ekki sjálfsævisögulegt, að
minnsta kosti ekki í viðurkenndum skilningi þess orðs, heldur til-
heyri það allt annarri bókmenntategund. Auk þess að leggja fram
nýtt mat á tilefni ljóðsins og tegund (og tímasetja það), vonast ég
til að geta svarað þremur tengdum spurningum: (1) Hvernig er
háttað tengslum „Man eg þig Mei!“ við bókmenntalega fyrir-
mynd sína, „Náhe des Geliebten“ eftir Goethe? (2) Af hverju
endurskoðaði Jónas „Man eg þig Mei!“ og birti árið 1843 undir
nafninu „Söknuður" og í hverju er þessi endurskoðun fólgin? (3)
Af hverju ber þessi birta gerð undirtitilinn: „Breítt kvæði“?
1. „Man egþig Mei!“
Eiginhandarrit Jónasar af „Man eg þig Mei!“ er að finna í KG 31
b I í safni Árnastofnunar í Reykjavík. Ólafur Halldórsson lýsir
þeim hluta handritsins sem hér skiptir máli á þessa leið: „KG. 31
b /, elzti hlutinn, allt kvæði sem Jónas Hallgrímsson hefur ort
heima, áður en hann fór til Kaupmannahafnar 23. ágúst 1832“
1 Texta þessara tveggja gerða er að finna í viðauka. Ef frá eru talin „Man eg þig
Mei!“ og „Söknuður" eru allir titlar og textar ljóða Jónasar teknir úr Jónasi
Hallgrímssyni 1989, 1. bindi. Ég þakka Sverri Hólmarssyni kærlega fyrir að
hafa snarað enskum texta þessarar ritgerðar yfir á íslensku.
Skírnir, 169. ár (vor 1995)