Skírnir - 01.04.1995, Page 42
SIGRÍÐUR MATTHÍ ASDÓTTIR
Réttlæting þjóðernis
Samanburdur á alþýðufyrirlestrum Jóns
Aðils og hugmyndum Johanns Gottlieb Fichte
A undanförnum tveimur öldum hefur þjóðernishyggja haft mikil
áhrif á þróun vestrænna þjóðfélaga. íslendingar hafa ekki farið var-
hluta af þeim áhrifum. Þjóðernishyggja hefur í ríkum mæli mótað
líf okkar og er óaðskiljanlegur þáttur í hugmyndum okkar um
hver við erum. Hluti af sjálfsþekkingu okkar hlýtur að felast í því
að kynnast þessum hugmyndaheimi og öðlast skilning á honum.
Með slíkt markmið í huga er þessi grein skrifuð, en hér verður
gerður samanburður á þýskri þjóðernishyggju eins og hún birtist
í byrjun nítjándu aldar og íslenskri þjóðernishyggju við upphaf
þeirrar tuttugustu. Eg tek sérstaklega til athugunar þætti úr
alþýðufyrirlestrum sagnfræðingsins Jóns Jónssonar (1869-1920)
eða Jóns Aðils, eins og hann nefndi sig á síðustu árum ævi sinnar.
Hugmyndaheimur alþýðufyrirlestranna verður borinn saman við
kenningar þýska heimspekingsins Johanns Gottlieb Fichte (1762-
1814) um eðli hinnar þýsku þjóðar, en Fichte er einn af helstu
hugmyndafræðingum þýskrar þjóðernisstefnu og hjá honum má
finna marga helstu þætti nútíma þjóðernishyggju.1
Jón hélt alþýðufyrirlestra sína hjá Hinu íslenzka stúdentafé-
lagi á fyrstu árum aldarinnar. Fyrirlestrarnir voru rómaðir; Páll
Eggert Ólason kveður Jón hafa verið afbragðs góðan fyrirlesara
og „sönnu næst, að aldrei hafi erindi betur sókt verið en þau, er
Jón flutti þá; var jafnan húsfyllir hjá honum“.2 Að sögn Jónasar
1 Sjá Dieter Diiding, „The Nineteenth-Century German Nationalist Movement
as a Movement of Societies" í Nation-Building in Central Europe, ritstj. Hagen
Schulze, Berg, Leamington Spa 1987, s. 22-23 og Michael Hughes, Nationalism
and Society. Germany 1800-1945, Edward Arnold, London 1988, s. 25-26 og
Elie Kedourie, Nationalism, 3. útgáfa, Hutchinson, London 1966, s. 141.
2 Páll Eggert Ólason, „Jón Jónsson Aðils", Skímir 94 (1920), s. 241 og 248. Hið
íslenzka stúdentafélag hafði að markmiði að uppfræða almenning með fyrir-
lestrahaldi.
Skírnir, 169. ár (vor 1995)