Skírnir - 01.04.1995, Page 57
SKÍRNIR
RÉTTLÆTING ÞJÓÐERNIS
51
má finna í ólíkum myndum og formum, en í grundvallaratriðum
þau sömu, í ritum fjölda höfunda úr öllum heimshornum.“47 A
hinn bóginn var samhengið ólíkt: Fichte flutti ávörp sín skömmu
eftir frönsku byltinguna sem andsvar við hernaði Napóleons.
Hann var frumkvöðull þess að nota sameiginlegt tungumál og
menningu sem grunn til að móta þýska nútímaþjóð úr íbúum
þýsku smáríkjanna. Þegar Jón Aðils hélt fyrirlestra sína í
Reykjavík í byrjun tuttugustu aldar höfðu þessar hugmyndir
unnið sér fastan sess í Evrópu. Þrátt fyrir ólíkar ytri aðstæður er
sterkur svipur með íslenskri og þýskri þjóðernishyggju. Grund-
völlur þeirrar hugmyndafræði sem Jón Aðils boðar er, líkt og hjá
Fichte, sérstaða menningar og tungu þjóðarinnar. I báðum
tilvikum var um að ræða samfélög sem stóðu höllum fæti
andspænis kröfum tímans um efnahagsframfarir og einstaklings-
hyggju-
Sköpunarsagan
Sem boðberi íslenskrar þjóðernishyggju er Jón Aðils að því leyti
betur í sveit settur en Fichte að þjóð hans á sér heimildir um upp-
runa sinn. Þetta notfærir Jón sér út í ystu æsar og býr til sköpun-
arsögu úr heimildunum sem hann gerir að grundvelli íslensks
þjóðernis. Samkvæmt Jóni voru helstu málsatvik sköpunarsög-
unnar þessi: Þegar fyrst fer sögum af Noregi var landinu skipt í
„mörg smáríki eða fylki“ og réðu fylkjunum fylkiskonungar eða
jarlar. Næstir í virðingarstiganum voru hersar sem voru eins kon-
ar leiðtogar stórbænda en næstir þeim voru óðalsbændur eða
höldar. Höldar gegndu hlutverki ættarhöfðingja út á við og
höfðu ótakmarkað vald innan ættarinnar:
Eins og allir hljóta að sjá, var þetta fyrirkomulag einkar vel fallið til að
vekja persónulega sjálfstœðistilfinningu hjá þessari fjölmennu stétt, enda
47 Elie Kedourie, Nationalism, s. 141. Við skulum þó einnig hafa í huga orð
Michaels Hughes; „þjóðernishyggja hvers lands er einstök í sinni röð og inni-
heldur þætti sem greinir hana frá öllum öðrum“; Nationalism and Society ..., s.
15. Sjá einnig Anthony D. Smith, National Identity, Penguin Books, London
1991, s. 66-67. Smith talar þar um þjóðaruppalendur (educator-intellectuals)
og hvernig þeir nota „gullaldir" í sögu þjóða sinna til að stuðla að þjóðarvakn-
ingu. Líta má á Jón Aðils sem íslenskan fulltrúa þessa hóps menntamanna.