Skírnir - 01.04.1995, Page 66
60
SIGRÍÐUR MATTHÍASDÓTTIR
SKÍRNIR
að mönnum bæri að líta til sem fyrirmyndar í sjálfstæðisbarátt-
unni, var „frelsi og sjálfstœði einstaklingsins innan sameiginlegra
þ)óðernisbanda“ (ÍÞ 79-80). Það sem Jón kallar „fagnaðarerindi
þjóðrækninnar“ fer saman við „fagnaðarerindi [...] frelsisins“, en
að mati Jóns boðuðu Fjölnismenn þetta tvennt í sama orðinu
(D 119). Þeir bættu auk þess framförunum við, enda „endur-
lífgar“ tímarit þeirra „þjóðernistilfinninguna og kveykir [svo]
nýja frelsis- og framfaraþrá í brjóstum manna“ (IÞ 224). Föður-
landsást Tómasar Sæmundssonar, sem var lífið og sálin í útgáfu-
starfi Fjölnismanna (IÞ 220), birtist einkum í framfaraþránni. Er
Tómas sá eitthvað gott og nytsamlegt hjá öðrum þjóðum spurði
hann sjálfan sig: „Er engin leið að koma þessu á heima?“ (D 106).
Að honum látnum varð heldur „ekkert hlé á framsókninni“:
Um það bil er Tómas andast stígur nýr [...] merkisberi fram á vígvöllinn
og lyftir framsóknarmerkinu, er fallið hafði úr höndum hans, hærra en
nokkru sinni fyr. Þessi maður er Jón Sigurðsson. Undir merki hans fylkja
sér nú allir þeir, er áfram sækja með þjóðinni [...]. (D 120)
Jón Sigurðsson, „sönn fyrirmynd [þjóðarinnar] í öllum grein-
um“, var þannig framsóknar- og sjálfstæðisþráin holdi klædd
(D 144), borinn áfram á öldu ættjarðarástar og þjóðernistilfinn-
ingar (ÍÞ 227).
Frelsið, framsóknin og þjóðarheildin eru óaðskiljanleg hugtök
í hugmyndaheimi Jóns. Það er auk þess von hans að sameiginleg
sigurganga þeirra muni að lokum leiða þjóðina til sannra yfir-
burða. Jón trúir, líkt og Fichte, að þjóð hans geti í framtíðinni
öðlast tilveru í samræmi við eðli sitt: „ Það sem þjóðin áður var,
það getur hún að vonum aftur orðið“ (ÍÞ 256).
Af skrifum Jóns Aðils að dæma má draga þá ályktun að ís-
lensk þjóðernishyggja, líkt og hin þýska, falli undir skilgreiningu
þeirra Kohns og Plamenatz á þjóðernishyggju hinna minni mátt-
ar. Þótt íslenskt þjóðfélag stæði vanmáttugt gagnvart framfara-
hyggju nútímans átti þjóðin sér ríka bókmenntaarfleifð og tungu
sem hafði varðveist lítt breytt í gegnum aldirnar. Þessar aðstæður
voru hinn ákjósanlegasti jarðvegur fyrir mikilmennskuhug-
myndir byggðar á minnimáttarkennd.