Skírnir - 01.04.1995, Page 82
76
GUÐMUNDUR JÓNSSON
SKÍRNIR
í landbúnaði var einnig reynt að setja útlendingum skorður.16
Danska stjórnin hunsaði þó ítrekaðar tilraunir Alþingis til að tak-
marka fasteignaumráð útlendinga, en gat fallist á að setja lög sem
reistu skorður við því að útlendingar festu fé í vatnsföllum, án
þess að þau væru virkjuð. Alþingi samþykkti fossalögin svo-
nefndu árið 1907, sem veittu þeim einum heimild til að eiga og
nýta vatnsafl sem heimilisfastir voru hér á landi, svo og félögum,
ef meirihluti félagsstjórnar væri búsettur hérlendis. Þessi löggjöf
var hins vegar frjálslega túlkuð af stjórnvöldum og takmarkaði
því lítt eignarhald útlendinga.
Sjálfstæðisbaráttan á efnahagssviðinu tók á sig ýmsar myndir.
Stefna Alþingis í fjármálum fram undir fyrri heimsstyrjöld er
ágætt dæmi um hvernig þjóðerniskennd gegnsýrði afstöðu manna
til mikilvægra landsmála. Halli á landssjóði var litinn óhýru auga
vegna þess að hann leiddi til skuldasöfnunar sem gat ógnað fjár-
hagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Opinberar lántökur voru bann-
orð af sömu ástæðum og það var ekki fyrr en árið 1908 að fyrsta
opinbera lánið - Landssímalánið svokallaða - var tekið. A fyrstu
áratugum íslenskrar fjárstjórnar var því rekin sparnaðarstefna á
þjóðernislegum forsendum, þar sem þing og stjórn lögðu kapp á
að safna fjárlagaafgangi í sérstakan sjóð, viðlagasjóð, á sama hátt
og forsjálir bændur söfnuðu hæfilegum fyrningum í búskap sín-
um. Viðlagasjóður varð í hugum manna tákn um fjárhagslegt
sjálfstæði og öryggi þjóðarinnar og tóku forsjálir stjórnmálamenn
undir forystu Gríms Thomsen og sjálfs landshöfðingjans, Magn-
úsar Stephensen, sérstöku ástfóstri við hann. Sjóðurinn óx og
dafnaði fram yfir 1890 þar til framkvæmdaglaðir menn náðu yfir-
höndinni á þingi.17
16 Nefnd sem endurskoðaði landbúnaðarlöggjöfina uppúr 1870 hafðj sett í frum-
varp sitt ákvæði um að útlendingar mættu ekki eiga fasteignir á íslandi nema
með sérstöku leyfi. Stjórnin tók ákvæðið ekki upp í frumvarp sitt til landbún-
aðarlaga árið 1879 þar sem hún taldi það brjóta í bága við „skilning manna nú
á tímum á sambandinu milli þjóða innbyrðis“; fjárfestingum erlendra manna í
vannýttum bjargræðisvegum landsins bæri þvert á móti að fagna, sjá
Alþingistíðindi (hér eítir Alþt.) 1879 I, bls. 53.
17 Guðmundur Jónsson, „The State and the Icelandic Economy, 1870-1930“,
ópr. ritgerð til Ph. D. gráðu við London School of Economics and Political
Science 1991, bls. 322-33.