Skírnir - 01.04.1995, Page 92
86
GUÐMUNDUR JÓNSSON
SKÍRNIR
arkjör og meira vöruúrval. Stjórnmálamenn hvöttu bændur áfram
enda gerðu þeir sér grein fyrir því að litlir vaxtarmöguleikar voru
á innlendum markaði eins og búsetu og atvinnu landsmanna var
háttað. Fræg eru leiðbeiningarkver Jóns Sigurðssonar, Lítil fiski-
bók og Lítil varningsbók, sem skrifuð voru landsmönnum til
bendingar um hvernig hægt væri að hagnýta sér betri tækni, bæta
vöruverkun og auka afrakstur af verslunarvöru.38 Islenskar hug-
myndir um hagþróun tóku að líkjast æ meir efnahagslegri
ídeólógíu bændahreyfinganna í Noregi og Danmörku á ofan-
verðri 19. öldinni, sem í grófustu dráttum má lýsa sem markaðs-
stýrðu hagkerfi smáframleiðenda með landbúnað sem þunga-
miðju, en vinnsla og sala afurða skyldi vera með samvinnusniði.39
Að framansögðu verður ekki séð að drifkrafturinn í sjálfstæð-
isbaráttu Islendinga hafi verið löngun til að halda í óbreytt efna-
hagsástand eins og haldið hefur verið fram. íslendingar vildu
byggja upp nútímalegri stofnanir og þegar líða tók á seinni hluta
aldarinnar urðu þeir æ móttækilegri fyrir tæknilegum nýjungum,
aukinni framleiðslu fyrir markað og frjálslyndri verslunarstefnu.
Allt var þetta merki um nýja tíma í íslenskum efnahagsmálum,
sem einkenndust öðru fremur af vaxandi tengslum við alþjóðlegt
viðskiptalíf.
I uppsveiflu iðnvœðingar 1890-1914
Eftir 1890 tók Alþingi upp afdráttarlausa frjálslyndisstefnu í efna-
hagsmálum og með heimastjórn 1904 var helstu pólitísku
38 Lítil fiskibók, með uppdráttum og útskýringum handa fiskimönnum á Islandi
(Kaupmannahöfn, 1859); Lítil varningsbók handa bœndum og búmönnum á
Islandi (Kaupmannahöfn, 1861).
39 1 sumum íslenskum sagnfræðiverkum er nánast öll uppbygging landbúnaðar
lögð að jöfnu við fortíðarhyggju og úrelta atvinnuhætti og því ekki komið
auga á mikilvægi þessa fjölmenna atvinnuvegar fyrir almenna hagþróun, sbr.
Ólafur Ásgeirsson, Iðnbylting hugarfarsins og Ingólfur V. Gíslason, Enter the
Bourgeoisie. Aspects of the Formation and Organization of Icelandic
Employers 1894-1934 (Lund, 1990). Á Norðurlöndum voru umbætur í land-
búnaði lykilþáttur í efnahagslegri nýsköpun langt fram á þessa öld. I Dan-
mörku byggðist markaðsbúskapur á endursköpun landbúnaðar, en einmitt
þangað sóttu íslendingar mjög fyrirmyndir í efnahagsmálum.