Skírnir - 01.04.1995, Page 128
122
ARNAR GUÐMUNDSSON
SKÍRNIR
skiptingu í málfari, sem hann taldi örla á meðal þjóðarinnar, sagði
hann: „Ef við förum að tala fleiri en eitt tungumál hér, þá er nú
lítið orðið eftir af stýrinu.“
Mikilvægi tungumálsins fyrir Islendinga má meðal annars ráða
af deilum sem upp hafa komið á undanförnum árum. í ársbyrjun
1991 breytti Svavar Gestsson, þáverandi menntamálaráðherra,
reglugerð þannig að heimilt yrði að senda beinar fréttaútsending-
ar frá átökunum við Persaflóa án íslensks texta. Þessar útsending-
ar vöktu hörð viðbrögð og umræðu um þýðingarskyldu almennt
(sjá t.d. Heimir Pálsson 1991; 1992). Haustið 1992 upphófust enn
deilur um framtíð íslenskrar tungu og menningar, að þessu sinni
vegna álagningar virðisaukaskatts á íslenska bókaútgáfu. í þeirri
öldu mótmæla sem fylgdi í kjölfarið var þessi ákvörðun meðal
annars kölluð árás á íslenska menningu.29
Áhyggjur yfir áhrifum alþjóðlegrar fjölmiðlunar og samskipta
á tungumálið koma fram í stefnuskrám stjórnmálaflokkanna.
Árið 1991 ræddi Kvennalistinn um „flóðbylgju“ í því sambandi.
Alþýðuflokkurinn notaði sömu líkingu og ræddi jafnvel um flóð-
bylgju „erlendrar lágmenningar". Rétt er að taka fram að stjórn-
málamenn leggja yfirleitt áherslu á að enginn vilji koma í veg fyrir
erlend áhrif, hinsvegar verði að laga þau að íslenskum veruleika. í
umræðum um fylgifrumvörp EES samningsins gagnrýndi Svavar
Gestsson að íslendingar væru að afsala sér réttinum til að grípa til
eigin ráða til verndar íslenskri menningu, til dæmis með því að
undanskilja liststarfsemi virðisaukaskatti. Hann gagnrýndi einnig
að útlendingar öðluðust rétt til útgáfu á blöðum og tímaritum á
íslandi og kallaði það „kaflaskil í íslenskri menningarsögu“ (Al-
þingi 1992-3, nr. 4, 1442-43).
Þessi ofuráhersla á tunguna (alias „Menninguna“ í mörgum
tilfellum) og sterk verndarstefna hlýtur að vekja spurningar um
það hvernig íslendingar ætli að taka á málefnum innflytjenda í
29 Sjá t.d. Tímann 3., 25. og 28. október 1992 og Morgunblaðið 4., 6., 10. og 24.
október sama ár. Einn rithöfundur kallaði þetta tilraun til að leggja niður
þjóðina og sagði: „Ef íslensk tunga væri dýrategund, þá væri hún talin í bráðri
útrýmingarhættu og alþjóðleg samtök vel stæðra manna með samviskubit
myndu eyða of fjár í að vernda hana“ (Sveinbjörn I. Baldvinsson 1992).