Skírnir - 01.04.1995, Page 146
140
SIGRÍÐUR HALLDÓRSDÓTTIR
SKÍRNIR
hinni“ Qón Thoroddsen 1949, 49). í samræmi við þessa frásögn
strekkti Margrét spjaldvefinn í fyrstu tilraunum sínum og tókst
eftir talsverða yfirlegu að vefa eftirmynd af íslenska bandinu.
Með grein sinni um íslenska þjóðmenningu gat hún nú birt teikn-
ingu af spjaldvef (að öllum líkindum tilraunavef sínum) og gefið
nokkra skýringu á orðinu sem hún hafði ekki skilið í fyrstu
(1896,376; 1901,3-4).
Ari síðar birti Margrét grein í þýsku kvennablaði, Illustrirte
Frauen-Zeitung, sem hún nefndi „Die islándische Brettchen-
Weberei“ eða íslenski spjaldvefnaðurinn. Þar lýsti hún spjöldun-
um og greindi frá því hvernig hún hafði ofið eftirmynd af íslenska
bandinu. Það hefur verið mikill sigur fyrir Margréti að geta leyst
þá þraut, ekki síst vegna þess að þetta var fyrsta tilraun hennar
með vefspjöld. Hún verður strax gagntekin af handverkinu. „Að
vefa í spjöldum þykir mjer svo ,inndæl vinna', að jeg vildi fegin
vera að því hvern einasta dag,“ skrifar hún (1898, 135). Það var
þrennt sem heillaði mest: Hin fábrotnu tæki, óþrjótandi notkun-
armöguleikar þeirra og hár aldur handverksins. Furðar Margrét
sig á að kunnáttan virðist vera við það að gleymast á Islandi eftir
að hafa varðveist þar öldum saman. Dr. Valtýr Guðmundsson
vakti athygli Margrétar á 28. vísu Guðrúnarkviðu II í Eddu þar
sem talað er um „húnskar meyjar, þær er hlaða spjöldum“. Vísan,
sem mun elsta heimild í íslenskum bókum tengd spjaldvefnaði,
varð Margréti mjög hugstæð og gaf henni tilefni til hugleiðinga
um aldur og uppruna handverksins (1898, 138; 1901, 9; Arnheið-
ur Sigurðardóttir 1969, 30).
Á meðan Margrét var að glíma við spjaldvefnaðinn skrifaðist
hún á við tvo íslendinga, séra Þorkel Bjarnason á Reynivöllum og
fræðimanninn Brynjúlf Jónsson frá Minna-Núpi, og leitaði upp-
lýsinga. Brynjúlfur sendi henni spjaldvefjarskeið úr tré (1901, 2)
og tólf sýnishorn af böndum (Bréfasafn Þ. og Þ. Th. 192, VIII),
ásamt skissu sem hann hafði gert af konu á íslenskum búningi að
vefa tvöfaldan spjaldvefnað (1899, 25). Séra Þorkell skrifaði að
aðeins ein gömul kona í sókninni kynni spjaldvefnað, en hjá
henni fékk hann uppsettan vef með 40 tréspjöldum og sendi Mar-
gréti (1899, 24). Teikning gerð eftir skissu Brynjúlfs og önnur af