Skírnir - 01.04.1995, Page 184
178
VIRGILL
SKÍRNIR
Eólus svaraði og sagði:
„Þú, drottning, þarft einungis að nefna ósk þína, mér sæmir
að fara að skipun þinni. Því þú hefur veitt mér þetta ríki, þennan
veldisstaf og vináttu Júpíters, þú veitir mér sæti við veisluborð
guðanna og þú veitir mér yfirráð yfir vindum og veðrum.“
Að svo mæltu sneri hann spjóti sínu og laust því djúpt niður í
hvelfingu fjallsins: en vindarnir ryðjast út líkt og í herfylkingu
hvar sem glufur opnast og þeytast yfir jörðina. Þeir grúfðu sig
yfir sjóinn og Evrus og Nótus róta honum upp neðan úr djúpun-
um, Afríkus æðir áfram í fellibyl, og þeir velta stórum öldum til
stranda. Nú má heyra óp mannanna og brak í köðlum. Á einni
svipstundu nema skýin dagshimininn frá augum Tróverja og
svört nótt breiðir sig yfir sjóinn. Himinskautin drynja af þrum-
um, upphiminninn logar í eldingum og allt boðar mönnunum
bráðan dauða. Lamandi kuldi læsist undir eins um Eneas; hann
andvarpar og fórnar báðum höndum upp til stjarna með þessum
ummælum:
„Ó, margfalt sælli eruð þér sem fenguð að deyja undir háum
múrum Trójuborgar í augsýn feðra yðar. Ó, þú Týdeifssonur,
hraustastur allra Danáa! Hví fékk ég ei að falla á Ilíums-völlum
og líða burt fyrir hægri hendi þinni, þar sem Hektor féll fyrir
spjóti niðja Eakusar og Sarpedon hinn mikli; þar sem Símóis velt-
ir í farvegi sínum á burt skjöldum og hjálmum og hraustum lík-
ömum?“
Meðan hann þylur þessar harmatölur skellur öskrandi hvirfil-
bylur af norðri í seglið og þyrlar öldum upp til stjarna. Árar
brotna, framstafninn snýr sér undan og býður stórsjónum kinn-
unginn, og yfir hann hvolfist þverhníptur vatnshamar. Sum skip-
anna vega salt hátt á bárusköflum, öðrum sýnir sjórinn gapandi
hafsbotn í öldudölunum; brimið rótar upp sandinum. Nótus hríf-
ur þrjú skipanna, þeytir þeim upp á blindsker - þau sker eru á
hafi úti, gríðarlegur hryggur í sjávarfletinum, og nefna Italir þau
Altari. Evrus kastar þremur skipum af hafi upp á grynningar -
brjóstumkennanleg sjón - keyrir þau til botns og verpir þau
sandi. Fyrir augum Eneasar ríður ólag yfir afturlyftingu eins af
skipunum; þar á voru Lykíumenn og hinn trúi Orontes; það hríf-