Skírnir - 01.04.1995, Page 185
SKÍRNIR
ÚR ENEASARKVIÐU
179
ur með sér stýrimanninn og hann steypist á höfuðið útbyrðis; en
flóðbylgjan hringsnýr skipinu þrisvar og loks svelgur iðan það.
Skipverjum skýtur upp einum og einum í hafrótinu, vopnum
þeirra, skipsbraki og kjörgripum Tróju. Stormurinn yfirbugaði
einnig rammsmíðað skip Ilíoneusar, skip hreystimennisins
Akkatesar, skip Abasar og skip öldungsins Aletesar: þau hleypa
óvinveittum sjónum inn um allar rifur á laskaðri síðu og gliðna
sundur.
Meðan á þessu gengur verður Neptúnus var við hinn mikla
gný sjávar, stormbeljandann og brimrótið úr neðstu djúpum;
honum verður órótt í sinni, lyftir stillilegu höfði sínu upp úr öld-
unni og skyggnist yfir hafið. Hann sér flota Eneasar á tvístri um
allan sæ og Tróverjana hrekjast undan sjávarofsanum og opnum
flóðgáttum himins; bróðurnum dylst ekki lævísi og reiði Júnóar.
Hann kallar Evrus og Sefýrus fyrir sig, og talar til þeirra þessum
orðum:
„Er ættardramb ykkar slíkt, að þið áræðið, vindar, að steypa
saman himni og jörð og reisa slíkar öldur, án þess að skipun mín
komi til? Ykkur mun ég ...! En fyrst hlýðir að kyrra stórsjóinn;
síðar skuluð þið kenna reiði minnar fyrir viðlíka misgjörðir.
Hypjið ykkur á brott og segið konungi ykkar þetta: Hlutkestið
færði ekki honum yfirráð sjávar né þríforkinn skelfilega, heldur
mér. Hann ræður yfir hinum ógnarlegu klettum, heimkynnum
ykkar, Evrus; þar í salnum má Eólus vindakonungur hreykja sér
hátt og ráða ríkjum í læstu fangelsi vindanna.“
Þannig mælti hann; og hann sefar skjótt æstar öldur, rekur
skýflókann á flótta og leiðir sólina aftur fram. Kymotóa og Trít-
on hjálpa nú til í ákafa og hrinda skipunum ofan af hvössum
dranginum; Neptúnus sjálfur léttir undir með þríforkinum og
ryður braut gegnum hinar miklu grynningar, mýkir ofsa sjávar
og þeysir síðan á léttum vagnhjólum yfir hafflötinn. Eins og oft
verður þegar saman er kominn fjöldi manns og ratar í uppnám,
sauðsvartur múgurinn verður illur og lætur kyndla og steina
fljúga - æðið býr til vopn - að þá þagnar lýðurinn, heldur að sér
höndum og sperrir eyrun þegar skyndilega birtist maður sem er
mikill sakir verðleika sinna og trúmennsku; hann stýrir hug
þeirra með orðum sínum og mýkir brjóst þeirra: eins hljóðnaði