Skírnir - 01.04.1995, Qupperneq 186
180
VIRGILL
SKÍRNIR
allur gnýr sjávar er faðirinn leit yfir hafflötinn og ók um heiðan
himin, sveigði til hesta sína, flaug í þýðum vagni með slakan
taum.
Lémagna freista Eneas og förunautar hans þess að ná skjótt
landi og þeir taka stefnu á strendur Líbýu. Þar hagar svo til, að
eyja myndar skjólgóða skipalegu innarlega á flóa nokkrum; á
henni brotna allar öldur af hafi, klofna og sogast aftur út. Beggja
vegna eru mikil standbjörg og tvídrangar mæna til lofts; undir
þeim þegir sjórinn, óhultur; allt um kring í baksýn glitra skógar í
brattri hlíð og sortna neðar, í lundi sem er slunginn ógnvænlegum
skuggum; beint andspænis horfir við hellisskúti, þar inni er ljúf-
fengt vatn og sæti höggvin í stein, heimkynni Vatnadísa. Hér þarf
ekki að binda þreytt skipin með köðlum, né heldur að festa þau
með sveigðri akkeristönn. Hingað heldur nú Eneas á sjö skipum,
sem hann átti eftir af öllum flota sínum; og af því að Tróverjana
fýsir svo mjög að hafa land undir fótum, stíga þeir frá borði í
þráðan fjörusand, leggjast endilangir á ströndina og teygja úr sjó-
votum limum sínum. Og Akkates sló nú neista úr tinnu, fangaði
eld með laufblöðum, hlóð síðan að þurrum eldsmat og fékk hann
skjótt til að loga. Þá bera þeir í land kornið, spillt af sjó, og
brauðgerðaráhöld sín, úrvinda eftir hrakningana, og búast til að
þurrka við eldinn það korn sem bjargað varð, og mylja það með
steini.
Á meðan þessu fór fram kleif Eneas hamar einn og skyggnist
nú yfir víðan sjó í þeirri von að koma auga á Anteus, hrakinn af
storminum, og tvílyft skip Frygíumanna, Kapys eða vopn
Kækusar í háum skut. Ekkert skip er að sjá; en í fjarska sér hann
þrjá hirti ráfa um á ströndinni, og fylgir öll hjörðin þeim eftir að
baki, á beit um dalina í langri fylkingu. Hér nam hann staðar,
þreif bogann og skjótar örvar, vopn er sá tryggi Akkates var van-
ur að bera; hann leggur fyrst að velli forystudýrin, er báru höfuð-
ið hátt með greinóttum hornum; því næst stuggar hann allri
hjörðinni með örvum sínum gegnum laufga lundi og hættir ekki
fyrri en hann, sigri hrósandi, hefur fellt sjö stórvaxin dýr, er svar-
ar til tölu skipanna. Hann heldur að því búnu aftur til hafnar og
skiptir fengnum með öllum förunautum sínum. Síðan útdeilir
hann víninu úr kerjum sem hetjan góða, Akestes, hafði fyllt ríku-