Skírnir - 01.04.1995, Page 187
SKÍRNIR
ÚR ENEASARKVIÐU
181
lega á Trínakríuströnd í kveðjuskyni er þeir héldu á brott; og
hann mýkir sorgmædd brjóst þeirra með þessum orðum:
„Ó, félagar - vér höfum vissulega ekki farið varhluta af þreng-
ingum - en vér höfum ratað í þyngri raunir, og mun guð einnig
gjöra enda á þessum þrautum. Þið komust í kast við æði Skyllu,
kynntust náið Hljóðadröngunum, og fjöll Kýklópanna reyndu á
þolrif ykkar; minnist þessa og bægið burt óttanum, sem gjörir
ykkur hrygga: ef til vill verður það ykkur til hugarléttis einhvern
tíma að rifja þetta upp. Því í gegnum margar þrengingar, margar
og miklar hættur stefnum vér til Latíums; þar hafa forlögin gefið
oss von um næðissama bústaði, að þar rísi að nýju ríki Tróju.
Verið því þolgóðir og sparið ykkur til betri tíma.“
Svo mælti hann; og þykist glaður í bragði, enda þótt hann sé
mjög hryggur innanbrjósts, byrgi í hjarta sínu djúpa sorg. Félagar
hans ganga hins vegar að veiðibráðinni að búa til málsverðar, þeir
flá hirtina, svo sér í iðrin, sumir brytja kjötið og reka skjálfandi
stykkin á teina, aðrir setja upp katla á ströndinni og hlúa að eld-
inum. Málsverðurinn eflir mönnunum aftur þrótt; þeir dreifa sér
um grasið, gjöra sér gott af gömlu víni og feitri villibráð. Og er
þeir hafa satt hungur sitt og matföngin verið tekin burt, þá ræðast
þeir lengi við, minnast týndra félaga sinna og eru á milli vonar og
ótta um það, hvort þeir mættu trúa því, að þeir lifðu enn eða
væru dauðir og heyrðu ei þótt til þeirra væri kallað. En einkum
harmar Eneas hinn trúfasti hlutskipti vaskleikamannsins Oron-
tesar, dauða Amykusar, grimmileg örlög Lykusar og hraust-
mennanna Gyasar og Klóantusar.
Og nú var þessu lokið þegar Júpíter lítur af upphimni ofan
yfir seglvængjaðan sjóinn og löndin, er lágu fyrir neðan hann,
strendur og dreifðar þjóðir; þá nam hann staðar efst á himinbog-
anum og festi sjónir á ríkjum Líbýu. Og er hann var að hreyfa
þessu í huga sér áhyggjuþungur, ávarpaði Venus hann, hrygg í
bragði, og streymdu tárin úr tindrandi augum hennar:
„Ó, þú sem eilíflega ræður kjörum manna og guða og skelfir
þá með eldingu þinni, hvað hefur Eneas minn getað gjört þér svo
mjög á móti, og þeir Trójumenn, að þú skulir, eftir að þeir hafa
beðið svo mikið manntjón, meina þeim landvist á allri jarðkringl-
unni sakir Ítalíu? Sannlega héstu því eitt sinn að Rómverjar