Skírnir - 01.04.1995, Side 197
SKÍRNIR
ÚR ENEASARKVIÐU
191
yður yfir hörmulegum raunum Tróju og bjóðið oss, sem erum
eftir leifðir af Danáum, örmagna af öllum óförum vorum á sjó og
landi og alls þurfi, borg og heimili; það er ekki á voru valdi að
gjalda yður verðugar þakkir, Dídó, né þeirra af þjóð Dardana,
hvar sem þá er að finna, sem eru tvístraðir um víða kringluna.
Megi guðirnir - ef guðlegt vald lætur sig á annað borð nokkru
varða trúfasta menn og ef til er réttvísi og sannsýni - veita yður
verðug laun. A hvaða gleðiríku tímum fæddust þér, hvaða ham-
ingjuríku foreldrar ólu yður? Eins lengi og vötn renna til sjávar,
eins lengi og skuggar líða um fjöll, eins lengi og himinninn heldur
til haga reikandi stjörnum, skal heiður yðar, nafn og orðstír vera
uppi, í hvaða lönd sem ég kem.“
Þannig mælti hann; og hann réttir hægri hönd sína Ilíoneusi
vini sínum og vinstri hönd Serestusi, því næst heilsar hann hin-
um, hreystimenninu Gyasi og Klóantusi sterka.
Við þessa sjón varð Dídó hin sídónska fyrst höggdofa og ekki
undraði hana síður er hún heyrði um hinar miklu ófarir hetjunn-
ar; svo mælti hún:
„Gyðjusonur, hvaða ógæfa eltir þig í svo mörgum þrenging-
um, hvaða máttur hrekur þig að eyðiströndum? Ert þú ekki Ene-
as sá, sem hin blíða Venus ól Dardananum Ankísesi við bárur
Símóis-fljóts í Frygíu? Víst rekur mig minni til að Tevker kom til
Sídón, burtrækur úr föðurlandi sínu, og leitaði nýrra ríkja með
tilstyrk Belusar; Belus, faðir minn, var þá að herja á hina auðugu
Kýpur; hafði hann sigur og varð eyjan að lúta valdi hans. Upp frá
þeim tíma veit ég skil á örlögum Tróju, nafni þínu og konungum
Pelasga. Sjálfur bar hann mikið lof á Tevkra, enda þótt hann væri
fjandmaður þeirra, og þóttist kominn af gamalli ætt Tevkra. Fylg-
ið mér, menn, og verið velkomnir undir þök mín. Áður en ég
festi fót í þessu landi hafði ég einnig ratað í margar álíka þreng-
ingar: ég hef því lært að hjálpa þeim sem eru nauðstaddir.“
Jafnskjótt og hún hafði mælt þetta, leiðir hún Eneas í höll sína
og kunngjörir um leið að halda skuli guðunum blót í hofum.
Einnig sendir hún félögum þeirra tuttugu naut til strandar,
hundrað stóra bursthærða svínshryggi, hundrað feit lömb með
mæðrum sínum, þakkargjafir til hátíðahalda. En salir hallarinnar
voru klæddir innan skínandi skarti og veisla búin í húsunum