Skírnir - 01.04.1995, Page 198
192
VIRGILL
SKÍRNIR
miðjum; þar mátti sjá útvalin purpuraklæði, listilega ofin, ómælt
silfur á borðum, og langa sögu af hreystiverkum forfeðranna,
grafna í gull, mann fram af manni allt frá upphafi hinnar fornu
þjóðar.
Eneas sendir nú Akkates í flýti á undan til skipa - því föður-
ástin rændi hann allri eirð - að flytja Askaníusi tíðindin og fylgja
honum til borgar; hugur hins elskandi föður var allur hjá Askaní-
usi. Auk þess skipar hann svo fyrir, að honum séu færðar gjafir,
er bjargað varð úr rústum Tróju, myndofin skikkja, hlaðin gulli,
og blæja, útsaumuð með liljubleiku súlublómi á jöðrunum, sem
áður hafði verið skartbúningur Helenar hinnar argversku og hún
tók með sér frá Mýkenu er hún fór til Pergama til forboðinnar
hjónavígslu, dásamleg gjöf frá móður hennar, Ledu; auk þess
veldisstafur, sem Ilíona, elsta dóttir Príamuss, hafði eitt sinn bor-
ið, og hálsband úr perlum og tvískipt gullhlað, sett gimsteinum.
Akkates hraðaði sér til skipa að annast þetta.
En Kýterea er að velta fyrir sér nýjum leiðum, nýjum
kænskubrögðum; Kúpídó skyldi taka á sig annan svip og fas og
koma í stað ljúflingsins Askaníusar og með gjöfunum tendra ást-
arbál í drottningu er læsti sig inn í merg og bein. Því hún óttast
hverflyndi og flærð Týrverja; grimmd Júnóar logar enn glatt og
undir nótt vakna nýjar áhyggjur. Þess vegna ávarpar hún svo-
felldum orðum hinn vængjaða Amor:
„Sonur, þú einn ert kraftar mínir, minn mikli máttur; sonur,
sem kærir þig kollóttan um Týföusar-skeyti Júpíters alföður, til
þín flý ég og ákalla í auðmýkt guðdóm þinn. Þér er kunnugt
hversu bróðir þinn, Eneas, hrekst um úti fyrir öllum ströndum
sakir fjandskapar Júnóar, sem ber heiftarhug til hans, og oftsinnis
hefur þú fundið til með mér í sorg minni. Nú heldur Dídó hin
föníska í hann og tefur fyrir honum með blíðmælum; ég kvíði því
hvaða endi sú gestrisni fær, sem er að undirlagi Júnóar; ekki mun
hún hika, fari svo fram sem horfir. Því hef ég í hyggju að blekkja
drottninguna áður með vélum, girða hana girndarlogum, svo eng-
inn guðlegur máttur haggi vilja hennar, heldur elski hún Eneas
heitt ásamt mér. Hlýddu nú á orð mín um það, hvernig þú gætir
fengið þessu framgengt. Konungborinn piltur, yndi mitt og eftir-
læti, býr nú för sína til hinnar sídónsku borgar, að boði síns kæra