Skírnir - 01.04.1995, Page 205
SKÍRNISMÁL
Fornfræðin og nútíminn
Á liðnu ári birtist í þessu tímariti ritgerð eftir Gottskálk Þór
Jensson fornfræðing um þýðingar Helga Hálfdanarsonar á grísk-
um harmleikjum og afstöðu Islendinga til klassískrar menningar.
I ritgerð sinni gagnrýnir Gottskálk ákveðin viðhorf til fornra
mennta sem finna má hjá fornfræðingum og unnendum forn-
menningar: „Það er nefnilega svo að sumir þeir sem fjallað hafa
um þessar bókmenntir hneigjast til þess að nota þær á alls óvið-
eigandi hátt sem barefli á ímyndaða eða raunverulega andstæð-
inga sína.“ Ef marka má hvert Gottskálk beinir skeytum sínum
hefur hann í huga viss afbrigði af þjóðernishyggju og samtíðar-
hatri sem iðulega geta af sér ankannalegar athugasemdir um forn-
menningu og einkum samtíðina. Klassískri fornöld er hampað
sem gullöld mannkyns og samtíðin kennd við fákænsku og dýrs-
eðli. Fall fornfræði á okkar dögum er harmað og greininni flíkað
sem frelsandi afli. Þá er tíundaður skyldleiki íslenskrar menningar
(einkum miðalda) og grískrar fornmenningar, skýrleiki tungu-
mála, heiðríkja hugsunar. Slík viðhorf eru hvimleið, verst fyrir
fræðin sjálf, eins og hvaðeina sem hafnar eigin samtíð. Síðan
koma þau af stað kvitti um dauðateygjur fornra mennta, því
hvaða lífi lifir fræðigrein sem vill helst komast afturábak út úr öld
sinni? Kvitturinn er afgamall, enda eru þjóðernishyggja og sam-
tíðarhatur afgömul mál. Árið 1912 þykir horfa til verri vegar og
Steingrímur Thorsteinsson bölvar samtíðarmönnum sínum,
óalandi og óferjandi, því menningarheimur fornaldar er
alltaf að verða meir og meir terra incognita, og er bágt til þess að vita, að
menn skuli hafa verið svo blindaðir hér á landi, að það væri framför, það
væri að fylgja tímanum að uppræta forntungunámið og sjá ekki í grísk-
unni og latínunni annað en „tvær hornuglur", eins og ísafold komst að
orði [...].
Kvitturinn um dauðateygjur fornra mennta hefur verið á kreiki
síðan. Árið 1991 bölvar Sigurður A. Magnússon samtíð sinni af
Skímir, 169. ár (vor 1995)