Skírnir - 01.04.1995, Page 206
200
SVAVAR HRAFN SVAVARSSON
SKÍRNIR
sama tilefni og Steingrímur forðum tíð: af því felld var niður
kennsla í grísku við Lærða skólann árið 1904 eru „Islendingar
upp og ofan [...] hörmulega fákunnandi um rætur vestrænnar
menningar".1
Skýringin á kvittinum er í raun tvenns konar: annars vegar
gremst fornfræðingum réttilega skilningsleysi á mikilvægi greinar
sinnar, hins vegar er greinin skilin þessum leiðinlega skilningi
sem er litaður þjóðernishyggju og afneitun á samtíðinni. Það er
alkunna að fornar menntir teljast ekki jafnmikilvægar og fyrr; til
dæmis eru sjálf fornmálin „hornuglur“ í skólakerfinu. Ástandið
er skiljanlegt, enda teljast hvorki latína né gríska til almennrar
menntunar; Virgill má muna sinn fífil fegurri: Arma virumque
cano er ekki á hvers manns vörum. Staða fræðanna hefur óve-
fengjanlega breyst í breyttum heimi: lærðir kunna ekki latínu,
hafa ekki Hóras á hraðbergi, eina hendingu fyrir hvert tilefni. En
nú vill einnig til að menningarsögu fornaldar er ekki alltaf gert
hátt undir höfði; sums staðar í skólakerfinu er hún hornreka,
annars staðar hefur henni verið hent út eins og hverjum öðrum
villiketti; þar fá nemendur hvorki að heyra um Apollon og
Artemis né Platon og Aristóteles. En eitt er að sýta ástandið og
annað að gerast málsvari þeirra viðhorfa sem Gottskálk vegur að.
Nú vil ég síður að æðrunni sem sprettur af réttlátri reiði yfir
skilningsleysi skólanna sé slegið saman við misskilning á stöðu
fornfræði í nútímanum og fái síðan útrás á kynlegan hátt með
heimsósómatali um hnignun. Miklu heldur vil ég kanna orsökina
fyrir breyttu ástandi fornra mennta og afleiðingar, ekki eins og
þær birtast í samtíðarhatri og þjóðernishyggju heldur í uppbyggi-
legri ástundun fornra mennta sem hafnar ekki samtíð sinni.2
1 Orð Gottskálks má finna í: „Aþenskar tragedíur í íslenskum (þjóð?)búningi“,
Skírnir (vor 1994) 214. Um Steingrím Thorsteinsson, sjá: Kristján Árnason,
„Sveinbjörn Egilsson og grískar menntir á íslandi", Sigurður A. Magnússon
o.fl. (ritstj.), Grikkland ár og síð (Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag,
1991) 30. Orð Sigurðar A. Magnússonar má finna í inngangi að sama riti, 11.
2 Um menningarsögu fornaldar í skólakerfinu, sjá: Eyjólfur Kjalar Emilsson,
„Litrík forneskja og grá samtíð: ræktarleysi skólanna við fornmenningu", Ný
menntamál 4. árg. 1. tbl. (1986) 11-15. Kvitturinn hefur ekki aðeins flogið á