Skírnir - 01.04.1995, Page 210
204
SVAVAR HRAFN SVAVARSSON
SKÍRNIR
Því er sennilegt að fólk hafi upphaflega vegsamað frumkvöðul hverrar
kunnáttugreinar sem tók berri skynjun fram, ekki aðeins vegna gagnsemi
funda þeirra, heldur vegna visku sinnar og yfirburða. Og fleiri kunnáttu-
greinar voru fundnar upp ýmist til bjargræðis eða dægradvalar. Þá töld-
ust þeir jafnan vitrari sem fundu upp kunnáttugreinar til dægradvalar,
því þekking þeirra beindist ekki að gagnsemi. Og þegar slíkar greinar
höfðu fullkomnast, fundu menn upp þekkingargreinar sem hvorki bein-
ast að ánægju né nauðþurftum. Það gerðist fyrst þar sem mönnum gafst
tóm. Þannig urðu til kunnáttugreinar stærðfræðinnar í Egyptalandi, þar
sem klerkastéttinni gafst tóm. (Frumspekin I 1981b 14-25)
Þegar fornfræðingur heyrði gagnsemisrökin varð hann eins og lús
milli tveggja nagla. Á öldum áður hefði hann sem hægast getað
samþykkt hvaða skilning sem var á gagnsemi og haft nokkuð til
síns máls, því fornfræði var undirstaða allrar menntunar; latínu-
kunnátta var nauðsynlegt skilyrði fyrir fé og frama. I grein sinni
um skóla á íslandi frá 1842 sagði Jón Sigurðsson frá hugmynd
sinni um hvaða vísindagreinar skyldi kenna við lærðan skóla og
hversu mikið. Hugmyndin þótti róttæk og horfði til almennrar
gagnsemi og þarfa borgarastéttar; aðeins tæpum fjórum tíundu
hlutum tímans skyldi varið í fornmálin. Eftir því sem á leið öld-
ina varð hlutur þeirra stöðugt minni. Um aldamótin höfðu gagn-
semisviðhorf eðlilega undirtökin: þetta bókvit varð ekki í askana
látið og fornfræði bar skarðan hlut frá borði.4
íhaldssemi fornra mennta var við brugðið; afstaðan til klass-
íska heimsins eins og hún birtist um aldir í fornfræði einkenndist
oft af sjónarmiðum afturhalds. I vissum skilningi bjó fornfræði
ekki við neina sérstöðu, enda mótaði ráðandi stétt viðhorf til allra
greina, því hún lagði stund á þær. En greinar virðast hafa verið
misjafnlega móttækilegar fyrir róttækum hugmyndum. Forn-
fræðin var ekki hrifnæm og ástæðan hefur verið sjálft viðfangs-
4 Hugmynd Jóns forseta má finna í: „Um skóla á íslandi" Ný félagsrit (1842)
154-56. Ágætur vitnisburður um vörn klassískra fræða við niðurlag nítjándu
aldar gegn ásökunum um gagnsleysi er fyrirlestur sem enska skáldið og forn-
fræðingurinn A. E. Housman flutti árið 1892 við University College í Lund-
únum þegar hann gerðist prófessor í latínu; sjá: A. E. Housman, „Introduct-
ory Lecture", C. Ricks (ritstj.), Collected Poems and Selected Prose (Harm-
ondsworth: Penguin Books, 1988).